Innlent

Reyndi að fremja vopnað rán í verslun í Reykja­vík

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var einnig kölluð út vegna líkamsárásar í Kópavogi í gærkvöldi.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var einnig kölluð út vegna líkamsárásar í Kópavogi í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í matvöruverslun í hverfi 105 í Reykjavík í nótt þar sem hann hafi reynt að fremja vopnað rán.

Skömmu áður hafði lögregla fengið tilkynningu um mann á gangi með stóran eldhúshníf í hverfinu. Þegar lögregla var á leið á svæðið barst tilkynning um vopnað rán í nálægri verslun en maðurinn hafði ógnað starfsmanni verslunarinnar og krafið hann um sígarettur.

Að sögn lögreglu var hann í mjög annarlegu ástandi og gistir nú fangageymslu.

Þá var einnig tilkynnt um innbrot í hársnyrtistofu í hverfi 108 í nótt. Ekki er ljóst hvað þjófurinn hafði upp úr krafsinu.

Líkamsárás í Kópavogi

Um klukkan 22:30 var tilkynnt um líkamsárás í Kópavogi. Þar greindi maður frá því að hafa setið í bíl sínum á stæði þegar tveir menn komu að. Þegar bílstjórinn steig út úr bílnum réðust mennirnir að honum með höggum og spörkum og veittu honum áverka. Þeir flúðu svo á brott en málið er í rannsókn.

Fyrr um kvöldið varð óhapp í Kópavogi þar sem bíl var ekið á vegg á töluverðum hraða, þannig að loftpúðar sprungu út. 

Ökumaður og farþegar hlupu á brott eftir atvikið en komu skömmu síðar á vettvang aftur og ræddu við lögreglu. Ökumaðurinn sagðist hafa misst stjórn á bílnum og orðið svo skelkaður við áreksturinn að hann hljóp á brott.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×