Innlent

Skúli Tómas sinnir sjúklingum þrátt fyrir yfirlýsingar Landspítala

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt yfirlýsingu Landspítalans átti Skúli ekki að vera í samskiptum við sjúklinga.
Samkvæmt yfirlýsingu Landspítalans átti Skúli ekki að vera í samskiptum við sjúklinga.

Læknirinn sem grunaður er um að hafa mögulega valdið ótímabærum andlátum níu sjúklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á árunum 2018 til 2020, hefur stöku sinnum sinnt sjúklingum á Landspítalanum eftir að málið kom upp.

Forsvarsmenn Landspítalans höfðu lýst því yfir að læknirinn, Skúli Tómas Gunnlaugsson, yrði ekki í samskiptum við sjúklinga á meðan hann væri í endurmenntun og þjálfun á spítalanum. 

Það er Ríkisútvarpið sem greinir frá en fréttastofu RÚV barst á dögunum ábending frá sjúklingi sem sagði lækninn hafa sinnt sér og útskrifað af bráðalyflækningadeild.

Í svari frá spítalanum segir að vegna manneklu og undirmönnunar hafi það komið fyrir, af og til, að læknirinn hafi sinnt sjúklingum en þá undir handleiðslu annars læknis, enda sé umræddur læknir, Skúli Tómas, aðeins með tamkarkað lækningaleyfi.

Skúli var upphaflega sviptur lækningaleyfinu vegna atvikana á HSS en fékk seinna takmarkað lækningaleyfi frá Landlæknisembættinu.

Fyrir neðan má finna svar spítalans í heild:

„Í desember síðastliðinn var ákveðið að umræddur starfsmaður yrði færður til í starfi þar til skýrari myndi fengist af máli hans. Síðan þá hefur hann aðallega haft það verkefni að yfirfara gögn sjúklinga til stuðnings við störf annarra lækna á A2 og COVID göngudeild. Af og til koma hafa komið upp á spítalanum, vegna manneklu og undirmönnunar, neyðartilfelli þar sem umræddur starfsmaður sinnir sjúklingum á viðkomandi deildum en það er þá undir handleiðslu annars læknis enda er umræddur starfsmaður aðeins með takmarkað lækningaleyfi frá Landlækni sem háð er tilteknum skilyrðum. Afstaða spítalans í málinu frá því í desember er óbreytt.“

RÚV greinir frá því að lögregla bíði nú eftir matsgerð dómkvaddra matsmanna en samkvæmt fréttum Vísis af málinu áttu þeir að hefja störf í janúar síðastliðnum. Eiga þeir að svara spurningum um meðferð, greiningar og umönnun þeirra sjúklinga sem rannsókn lögreglu varðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×