Innlent

Faðir dæmdur fyrir ofbeldi gegn fjórtán ára dóttur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Austurlands í málinu.
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Austurlands í málinu. Vísir/JóhannK

Faðir á Austurlandi hefur verið dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir ofbeldi gegn dóttur sinni í október 2020. Hún var fjórtán ára þegar brotið átti sér stað.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Austurlands hvað þetta varðar í gær. Í dómnum kemur fram að faðirinn hafi misst stjórn á sér þegar hann reiddist dóttur sinni.

Var hann ákærður fyrir að hafa tekið í axlir hennar, ýtt henni inn í svefnherbergi hennar og rifið þar í hana. Næst hafi hann ýtt henni svo hún féll í gólfið og haldið henni þar niðri, sparkað einu sinni í fætur hennar og læri með þeim afleiðingum að stúlkan hlaut eymsli fyrir ofan hægra eyra.

Stúlkan lýsti því að hún hefði orðið hrædd, fór að hágráta og taldi saksóknari hegðunina ruddalega og særandi gagnvart stúlkunni.

Landsréttur leit til þess að faðirinn hefði að stærstu leyti viðurkennt það brot sem honum var gefið að sök. Þá væri framburður stúlkunnar trúverðugur og fengi stoð í vætti vitna og læknisvottorði.

Landsréttur horfði við ákvörðun refsingu til þeirrar staðreyndar að faðirinn hefði ekki áður sætt refsingu sem hefði áhrif í málinu. Þá hefði atlagan beinst gegn dóttur sem var fjórtán ára á þeim tíma.

Þótti 45 daga skilorðsbundið fangelsi og 350 þúsund krónur í miskabætur hæfileg refsing.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×