Lífið

Bjóða nýbökuðum foreldrum að læra ungbarnanudd á Værðardýnunni

Elísabet Hanna skrifar
Áklæðið á Værðardýnunni er 100% bómull og dýnan er fyllt með 100% íslenskri ull.
Áklæðið á Værðardýnunni er 100% bómull og dýnan er fyllt með 100% íslenskri ull. Aðsend.

Vinkonurnar og samstarfsfélagarnir Anna Katharina og Lena Csóti fengu hugmyndina að hönnun Værðardýnunnar eftir að hafa báðar unnið mikið með börnum. Nú bjóða þær nýbökuðum foreldrum á vinnustofu til þess að prófa hönnunina og læra grunnatriði í ungbarnanuddi.

Blaðamaður hafði samband við hönnuðina og fékk að leggja fram nokkrar spurningar um Værðardýnuna og þátttökuna í HönnunarMars sem fer af stað í vikunni.

Hvernig er stemningin fyrir HönnunarMars?

Hún er mjög góð, við erum spenntar! HönnunarMars er frábær vettvangur spennandi nýsköpunarverkefna eins og Værðardýnunnar, verkefna sem eru í bullandi þróun og líta hér dagsins ljós.

Hvernig verður fyrirkomulagið?

Við ætlum að bjóða nýbökuðum foreldrum upp á að prófa hönnunina okkar, Værðardýnuna, á viðburði sem haldinn verður í Samfélagshúsinu, en það er til húsa upp í hlíðum nánar tiltekið í Bólstaðarhlíð 43.

Þar verður komið upp yndislegri aðstöðu þar sem hægt verður að dvelja með okkur í allt að 90 mínútur í senn, fá kennslu í grunnatriðum ungbarnanudds og upplifa þar með barni sínu kosti Værðardýnunnar. Vinnustofan er ókeypis og ætluð foreldrum barna á aldrinum þriggja til ellefu mánaða.

Foreldrar geta skráð sig og tekið þátt.Aðsend.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig á vefsíðunni www.handsonhealth.is eða á Facebook viðburðinum sem er undir „handsonhealthreykjavik“ en fjöldatakmörkun miðast við átta þátttakendur í hvert sinn.

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Við höfum báðar mikla reynslu af því að vinna með börnum. Anna er hönnuður en jafnframt leikskólakennari og Lena er ungbarnanudds- og barnajógakennari. Vináttan okkar og sú skapandi nálgun sem við teljum einkenna okkur í starfi, ásamt sameiginlegum áhuga á íslensku ullinni leiddi okkur að þróun þessarar hugmyndar um sjálfbæra og umhverfisvæna dýnu fyrir ungbörn. 

Hugmyndin varð fljótt að Værðardýnunni, en þessi einstaka ungbarnadýna er eins og fram hefur komið, einungis fyllt með íslenskri ull. Við sem vitum hve erfitt er að finna ungbarnadýnur sem ekki innihalda einhver gerviefni (pólýester fyllingar og þess háttar) og skiljum þörfina fyrir dýnu úr 100% náttúrulegum efnum. 

„Því teljum við að Værðardýnan sé framtíðardýna ungbarnsins.“

Hvernig viðbrögð hefur hönnunin verið að fá?

Við erum að kynna Værðardýnuna í fyrsta sinn á Hönnunarmars, þannig að það hafa ekki margir séð hana eða reynt, hingað til. Hún hefur samt fengið algerlega frábærar viðtökur frá þeim sem hafa séð hana og hafa fylgst með þróuninni. 

„Við hlökkum mikið til að sjá viðbrögðin á Hönnunarmars!“
Dýnan heldur góðum hita á litlum krílum.Aðsend.

Hvernig nýtist hún börnum og foreldrum?

Værðardýnan er nudddýna, hún er fyrir ungbörn og inniheldur eingöngu náttúruleg efni. Áklæðið er 100% bómull og dýnan er fyllt með 100% íslenskri ull. Íslenska ullin er hlý, hún er endingargóð og ekki ofnæmisvaldandi. 

„Þess vegna er mjúk íslensk ull einstaklega heppilegur efniviður í vöruna. Þar að auki getur ull dregið í sig raka án þess að tapa hitagildu sínu.“

Hefðbundið ungbarnanudd fer fram á gólfinu og er barnið annað hvort í léttum klæðnaði eða án klæða. Fyllingin í dýnunni veitir mýkt og stuðning við barnið hvort sem það liggur á baki eða situr upprétt. Dýnuna má einnig nýta sem skipti- eða leikdýnu fyrir barnið. Værðardýnan er létt, auðveld í þrifum og meðfærileg

Hvað er framundan?

Værðardýnan er fyrsta hugmyndin sem er komin í framkvæmd. Við erum með höfuðið troðfullt af hugmyndum um fleiri ungbarnavörur, einmitt úr náttúrulegum efnum, en hvaða nýju værðarvörur verða næstar í framkvæmd er kemur allt í ljós síðar.

HönnunarMars 2022 fer fram 4. til 8. maí. Alla dagskránna má finna á vef hátíðarinnar

Frítt er inn á alla viðburði fyrir utan DesignTalks ráðstefnuna í Hörpu. HönnunarMars er opinn öllum og dagskráin er fjölbreytt svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Hér má finna alla okkar umfjöllun um HönnunarMars 2022


Tengdar fréttir

Orð frá ókunnugum í sundi enduðu á kaffibollum

Samskipti manna og fugla, fagurfræði fuglabaða, samræður ókunnugra og gott kaffi er meðal viðfangsefna hjá Studio allsber á HönnunarMars í ár. Þetta skapandi teymi var stofnað árið 2020 og samanstendur af þeim Agnesi Freyju Björnsdóttir, Silvíu Sif Ólafsdóttur og Sylvíu Dröfn Jónsdóttur en þær leira keramikmuni með dass af leikgleði og einföldu handverki. Blaðamaður hafði samband við þær og tók púlsinn fyrir HönnunarMars.

„Við erum öll ólík en það er mjög hvetjandi að vinna saman“

Verslunin Apotek Atelier var opnuð í nóvember síðastliðnum á Laugavegi 16 og selur íslenska og vandaða hönnun. Rýmið er rekið af þremur íslenskum fatahönnuðum, Halldóru Sif með Sif Benedicta, Ýr Þrastardóttur með Another Creation og Sævari Markúsi sem hannar undir eigin nafni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×