Innlent

Hátt í 300 milljóna sekt fyrir skattalagabrot

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri ótilgreinds einkahlutafélags þarf að greiða ríkissjóði 283 milljónir króna fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, ella sæta fangelsi í 360 daga. Maðurinn var einnig dæmdur í 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

Maðurinn, sem ekki er nafngreindur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, var sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í ótilgreindu einkahlutafélagi, sem nú er afskráð, ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri félagsins

Manninum var gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti í rekstri einkahlutafélagsins fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst til og með nóvember-desember árið 2019, samtals að fjárhæð rúmlega 141 milljón króna.

Vildi að fésektarlágmark ætti ekki við

Maðurinn játaði sök fyrir dómi en krafðist þess að fésektarlágmark, sem er að lágmarki tvöföld þeirri skattfjárhæð sem um ræðir, ætti ekki við í málinu.

Lagði hann fram gögn sem sýndu að á tímabilinu 8. október 2019 til 4. maí 2020 hafi 128,5 milljónir króan verið greiddar inn á skattskuldir einkahlutafélagsins en einungis 809 þúsund krónur farið inn á höfuðstól krafna þeirra virðisaukaskattskulda sem ákært var fyrir.

Héraðsdómur Reykjavíkur leit meðal annars til þess að maðurinn játaði greiðlega sök í málinu.Vísir/Vilhelm.

Var bent á að hefði maðurinn óskað þess að greiðslurnar rynnu inn á höfuðstól kröfu vegna ógreidds virðisaukaskatts hefði krafan vegna hans einungis numið rúmlega þrettán milljónum króna.

Í dómi héraðsdóms segir að til þess að fésektarlágmark eigi ekki við þyrfti eigi minna en þriðjungur þess sem gjaldfallið var að vera greitt, því teldust greiðslurnar í þessu tilfelli ekki vera verulegar. Var fésektarlágmar því látið gilda.

Litið til greiðlegrar játningar

Alls þarf maðurinn því að greiða ríkissjóði 283 milljónir króna, eða tvöfalda þá skattupphæð sem um ræðir í málinu. Greiði maðurinn ekki skuldina innan fjögurra vikna þarf hann að sæta 360 daga fangelsi.

Þá var maðurinn einnig dæmdur í 24 mánaða skilorðsbundið fangelsi, en tekið er fram í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi ekki áður gerst sekur um refsiverð brot og að litið hafi verið til greiðlegrar játningar hans í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×