Innlent

Sýnatakan færð af Suðurlandsbraut yfir í Mjóddina

Eiður Þór Árnason skrifar
Heilsugæslustöðin í Mjódd fær nú nýtt hlutverk.
Heilsugæslustöðin í Mjódd fær nú nýtt hlutverk. Vísir

Sýnataka vegna Covid-19 á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) mun færast af Suðurlandsbraut í Mjóddina á föstudag. Þar mun hún fara fram í anddyri húsnæðis heilsugæslunnar að Álfabakka 16.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH, segir að tímabært hafi verið að minnka aðstöðuna og sýnatakan verði á nýja staðnum í sumar hið minnsta.

Mikill samdráttur hafi verið í aðsókn eftir að sóttvarnatakmörkunum var aflétt og nú séu að jafnaði tekin um 100 til 200 PCR-próf á dag. Mest sé um að ræða ferðamenn sem þurfi vottorð vegna ferðalaga.

Heilsugæslan hefur verið með sýnatöku á Suðurlandsbraut 34 samfellt frá því í júlí árið 2020 en hefur nú sagt upp leigusamningnum. Ragnheiður segir að húsið hafi hentað vel undir starfsemina og vill skila sérstökum þökkum til fasteignafélagsins Reita sem lánaði húsnæðið í fyrstu endurgjaldslaust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×