Innlent

Borgaryfirvöld samþykkja Kænugarð og Kýiv-torg skammt frá sendiráði Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eyþór Arnalds er meðal þeirra sem hafa talað fyrir nafnabreytingunni og sagði á dögunum við hæfi að Reykvíkingar styddu sjálfstæðisbaráttu Úkraínumanna með þeim táknræna hætti að breyta nafninu á Garðastræti í Kænugarðsstræti.
Eyþór Arnalds er meðal þeirra sem hafa talað fyrir nafnabreytingunni og sagði á dögunum við hæfi að Reykvíkingar styddu sjálfstæðisbaráttu Úkraínumanna með þeim táknræna hætti að breyta nafninu á Garðastræti í Kænugarðsstræti. Stöð 2/Egill

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi í morgun að nefna torgið á horni Garðastrætis og Túngötu Kænugarð. Til að koma til móts við óskir um notkun úkraínsks heitis höfuðborgarinnar mun það einnig verða kallað Kýiv-torg.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en þar segir að tillögunni hafi verið vísað til borgarráðs og þá hafi umhverfis- og skipulagssviði verið falið að hefja undirbúning að gerði skiltis fyrir torgið, sem á ensku verður kallað „Kyiv Square“.

Í greinargerð með tillögunni segir að hún byggi á hugmyndum um að endurnefna götur, til að mynda Garðastræti og/eða Túngötu, og kenna við Úkraínu eða höfuðborgina Kænugarð til að sýna stuðning með Úkraínumönnum.

Þess ber að geta að sendiráð Rússlands stendur við Garðastræti.

„Eftir skoðun þykir rétt að leggja til að torgið á norðausturhorni beggja þessara gatna, Garðastrætis og Túngötu, verði kennt við Kænugarð eða Kýiv. Nafnið „Kænugarður“ vísar sögulegs nafns borgarinnar á íslensku og undirstrikar yfir árþúsunda langa sögu hennar. Þá skapar heitið ákveðin hughrif þar sem að torgið er um leið garður,“ segir í greinargerðinni.

„Hér er Reykjavík að senda skýr skilaboð um stuðning við úkraínsku þjóðina og minna um leið á ævaforna tengingu milli Íslands og Kænugarðs. Staðsetningin er viðeigandi við horn Garðastrætis og Túngötu en við þær götur eru einmitt skrifstofur og sendiráð erlendra ríkja,“ er haft eftir Eyþóri Laxdal Arnalds borgarfulltrúa í tilkynningu borgarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×