Innlent

Torgið á horni Garða­strætis og Tún­götu heiti Kænu­garður

Bjarki Sigurðsson skrifar
Torgið verður kennt við Kænugarð ef tillagan fer í gegn.
Torgið verður kennt við Kænugarð ef tillagan fer í gegn. Já.is

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur lagt fram tillögu þess efnis að torg á horni Garðastrætis og Túngötu verði héðan í frá kennt við Kænugarð, höfuðborg Úkraínu.

Torgið er staðsett á norðausturhorni Túngötu og Garðastrætis en lagt er til að það fái heitið „Kænugarður - Kýiv-torg“ til að sýna samstöðu með úkraínsku þjóðinni, ríkinu og borgum í kjölfar innrásar Rússlands í landið. Innan ráðsins hafa komið fram hugmyndir að endurnefna götur við Garðastræti og Túngötu, og kenna þær við Úkraínu eða Kænugarð. Eftir skoðun var það ákveðið að leggja til að torgið fengi nafnið. 

„Nafnið „Kænugarður“ vísar til sögulegs nafns borgarinnar á íslensku og undirstrikar yfir árþúsunda langa sögu hennar. Þá skapar heitið ákveðin hughrif þar sem að torgið er um leið garður,“ segir í tillögunni. 

Þá segir að þar sem heimafólk hafi óskað eftir því að í opinberri umræðu verði nafnið „Kýiv“ notað þyki eðlilegt að gefa torginu tvöfalt heiti. 

Á torginu má finna minnisvarða sem er þakkargjöf frá Lettlandi til Íslands fyrir að vera fyrst allra ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna. 

Aðeins nokkrum metrum frá torginu sem til stendur að nefna má finna sendiráð Rússlands. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×