Innlent

Lóðaskiptin handsöluð og Björgunarmiðstöð fram undan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samningar handsalaðir að lokinni undirskrift.
Samningar handsalaðir að lokinni undirskrift. Vísir/ArnarHalldórs

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis, undirrituðu síðdegis samning um lóð fyrir Björgunarmiðstöð.

Í Björgunarmiðstöð verður sameiginleg aðstaða fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, einkum embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Tollgæsluna, Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Áætlað er að þörf sameiginlegs húsnæðis fyrir starfsemina sé um 26 þúsund fermetrar en lóðin sem er á milli Kleppssvæðis og Holtagarða er um 30 þúsund fermetrar.

Lóðin á milli Holtagarð og Kleppsspítala þar sem Björgunarmiðstöðin mun rísa.

Reykjavíkurborg og íslenska ríkið gerðu með sér samning um lóðaskipti. Reykjavíkurborg fær í staðinn lóð, áþekka að stærð, við Borgarspítala í Fossvogi. Á lóðinni í Fossvogi mun Reykjavíkurborg þróa aukna íbúðabyggð og þegar þeirri vinnu lýkur verður hægt að bjóða til sölu byggingarrétt á lóðum á svæðinu.

Byggingasvæðið við Borgarspítalann þar sem Reykjavíkurborg hyggst útfæra íbúabyggð.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg á dögunum kom fram að á vegum ríkisins hefur frá júní 2020 verið unnið að undirbúningi byggingar sameiginlegrar aðstöðu fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, einkum fyrir embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Tollgæsluna, Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Merkta svæðið er 41 þúsund fermetrar.

Lóðargjald, miðað við að nýtingarhlutfall á lóðinni sé 0,5, er 390 milljónir króna, sem Reykjavíkurborg greiðir Faxaflóahöfnum við úthlutun. Fyrir umfram byggingarmagn greiðist viðbótarlóðargjald sem nemur gatnagerðargjaldi. Miðað við fjárhæð gatnagerðargjalds nú og að húsnæðið undir almannaþjónustuna verði 26 þúsund fermetrar, myndi viðbótarlóðargjald nema um 264 milljónum króna. Samanlagt yrði fjárhæð lóðagjalds þá um 654 milljónir. Umfram fjárhæðin kemur til greiðslu við útgáfu byggingarleyfis.

Fulltrúar þeirra aðila sem koma að Björgunarmiðstöðinni.

Reykjavíkurborg mun annast endurskoðun á gildandi deiliskipulagi lóðar björgunarmiðstöðvarinnar og eftir atvikum aðalskipulagi borgarinnar, í samvinnu við ríkið.

Við gerð deiliskipulags skal meðal annars skilgreina byggingarheimildir og umferðartengingar með hliðsjón af fyrirhugaðri starfsemi. Verði þörf á viðbótarlandi eða athafnasvæði til að tryggja forgangsakstur eða umferðarflæði mun Reykjavíkurborg taka jákvætt í slíkar umleitanir verði sýnt fram á mikilvægi þess.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.