Innlent

Ítalski flugherinn á leið til landsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Von er á liðsmönnum ítalska flughersins til landsins á morgun.
Von er á liðsmönnum ítalska flughersins til landsins á morgun. Ítalski flugherinn

Von er á sveitum ítalska flughersins til landsins á morgun, mánudaginn 25. apríl. Liðsmennirnir, sem eru 135 talsins, koma með fjórar F-35 herþotur með sér.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er að hefjast með komu flugsveitar ítalska flughersins. Þetta er í sjötta sinn sem Ítalir leggja Atlantshafsbandalaginu til flugsveit vegna verkefnisins en flugsveit Ítala var seinast hér á landi fyrir tveimur árum.

Ítölsk F-35 þota.Ítalski flugherinn

Flugsveitin annast loftrýmisgæsluna ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, (NATO Control and Reporting Center-Keflavik).

Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu frá 26. apríl til 6. maí. Framkvæmd verkefnisins er með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Flugsveitin hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en þar dvelja einnig flugsveitir bandaríska sjóhersins við kafbátaeftirlit. Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í umboði utanríkisráðuneytisins og í samvinnu við Isavia. Loftrýmisgæslunni lýkur í lok júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×