Innlent

Telur að Bjarni hafi brotið lög og segir að hann þurfi að víkja

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Oddný G. Harðardóttir segir ummæli Bjarna Benediktssonar sýna fram á stórkostlegt gáleysi. 
Oddný G. Harðardóttir segir ummæli Bjarna Benediktssonar sýna fram á stórkostlegt gáleysi.  Vísir/Vilhelm

Fyrrum fjármálaráðherra telur að Bjarni Benediktsson hafi ekki farið að lögum við söluna á Íslandsbanka og þurfi að víkja. Fjármálaráðherra vísar því alfarið á bug og sér enga ástæðu til þess. Þegar mesti bylurinn vegna sölunnar verði yfirstaðinn muni Íslandsbankamálið sjást í öðru ljósi.

Oddný G. Harðardóttur, þingmaður Samfylkingar og fyrrum fjármálaráðherra, segir lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa verið brotin við útboð á Íslandsbanka.

Einkum þar sem fram kemur að ráðherra taki ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.

„Ef það er rétt sem að ráðherrann sjálfur segir að hann hafi ekkert vitað þá hefur hann brotið lög og það er stórkostlegt gáleysi,“ segir Oddný.

Aðspurð um hvort hann hefði þurft að undirrita hvert einasta tilboð segir hún svo vera.

„Samkvæmt lögum þá á hann að samþykkja með því að skrifa undir. Ef hann úthýsir því, þá ber hann samt sem áður ábyrgð,“ segir Oddný.

Oddný telur að ráðherrann þurfi að víkja. Tveir höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis hafa áður bent á sömu lög og telur annar þeirra að þau hafi verið brotin og hinn að salan sé þvílíkt klúður að fjármálaráðherra eigi að víkja.

Telur ekki ástæðu til þess að hann segi af sér

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir af og frá að hann hafi brotið lög við söluna.

„Við komum á fót Bankasýslunni til að tryggja ákveðna hlutlægni við meðferð þessara mála,“ segir Bjarni.

Stjórnarandstaðan hefur meðal annara kallað eftir því að hann víki en sjálfur segir hann ekki tilefni til þess.

„Það er ekki nýtt fyrir mér að pólitískir andstæðingar óski þess að ég víki úr embætti og ég hef ekki komið auga á ástæðu til að gera það,“ segir Bjarni.

Stjórn Bankasýslu ríkisins skoðar nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum í útboðinu og mun að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknun í tilvikum þar sem ágallar voru við sölu.


Tengdar fréttir

Fjármálaráðherra vísar alfarið á bug að hafa brotið lög

Fyrrverandi fjármálaráðherra telur að fjármálaráðherra hafi brotið lög við söluna á Íslandsbanka. Hann þurfi að víkja, salan sýni spillingu og einkavinavæðingu. Fjármálaráðherra vísar þessu algjörlega á bug og ætlar hvergi að víkja. 

83 prósent landsmanna óánægð með Íslandsbankaútboðið

83 prósent landsmanna eru óánægðir með nýafstaðna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka ef marka má nýja könnun sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið. Aðeins 7 prósent eru ánægð með hvernig til tókst og 3 prósent mjög ánægð.

„Ég hef ekki séð neitt enn þá sem að segir mér að lög hafi verið brotin“

Fjármálaráðherra telur að sýna þurfi þolinmæði á meðan rannsókn á sölu Íslandsbanka stendur yfir. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni stjórnarandstöðunnar og fullyrðir að málið verði kannað. Hann segir þó ekkert benda til þess á þessum tíma að lög hafi verið brotin og vill ekkert gefa upp um hvort hann myndi segja af sér, kæmi slíkt brot upp. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×