Innlent

Aftur til­kynnt um rangan sigur­vegara í Morfís

Smári Jökull Jónsson skrifar
Menntaskólinn í Reykjavík fékk ekki að fagna sigri að keppni lokinni í gær en var úrskurðaður sigurvegari síðar um kvöldið.
Menntaskólinn í Reykjavík fékk ekki að fagna sigri að keppni lokinni í gær en var úrskurðaður sigurvegari síðar um kvöldið. Vísir/Vilhelm

Verslunarskóli Íslands var ranglega úrskurðaður sigurvegari í viðureign skólans gegn Menntaskólanum í Reykjavík í MORFÍS í gærkvöldi. Þetta er í annað sinn á innan við ári sem samskonar mistök eiga sér stað í keppninni.

Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, einnig þekkt sem MORFÍS, hefur verið fastur liði í félagslífi framhaldsskóla landsins um áraraðir og oftar en ekki vakið athygli almennings enda mikið líf og fjör oft í kringum keppnina.

Í gær mættust Menntaskólinn í Reykjavík og Verslunarskóli Íslands í undanúrslitum keppninnar en skólarnir hafa marga hildina háð í gegnum árin bæði í MORFÍS sem og spurningakeppninni Gettu betur.

Að lokinni keppni í gærkvöldi var Verslunarskólinn tilkynntur sigurvegari og hafði þar með tryggt sér sæti í úrslitaviðureign gegn Menntaskólanum á Akureyri.

Á Facebook síðu keppninnar er hins vegar greint frá mistökum sem áttu sér stað áður en úrslit voru tilkynnt. Innsláttarvilla í dómaraskjali varð til þess að stigin voru reiknuð rangt og Menntaskólinn í Reykjavík því sigurvegari og fer í úrslit.

Í færslunni segir að innsláttarvillan hafi falist í því að gleymst hafi að draga frá refsistig Verslunarskólans frá oddadómara og að eftir ítarlega skoðun sé MR því réttmætur sigurvegari.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem samskonar mistök eiga sér stað í MORFÍS. Í úrslitaviðureign keppninnar í fyrra var tilkynnt að Flensborgarskólinn hefði unnið sigur en skömmu síðar var svo tilkynnt að mistök hefðu átt sér stað og Verslunarskólinn væri sigurvegari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×