Innlent

760 Úkraínumenn sótt hér um alþjóðlega vernd

Eiður Þór Árnason skrifar
Stór hluti úkraínsku þjóðarinnar hefur flúið landið eftir að stríðsátökin brutust út.
Stór hluti úkraínsku þjóðarinnar hefur flúið landið eftir að stríðsátökin brutust út. Vísir/Vilhelm

Alls hafa 760 einstaklingur með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi eftir að innrás Rússa hófst í Úkraínu í febrúar. Um að ræða 461 konu, 198 börn og 146 karla.

Síðastliðnar tvær vikur hefur 201 sótt um vernd og 52 síðustu sjö daga. Ef sjö daga meðaltal er notað sem forspárgildi má gera ráð fyrir því að um 208 manns með tengsl við Úkraínu muni sækja um vernd á Íslandi næstu fjórar vikur.

Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra. Sé horft til allra þjóðerna hafa alls 1.186 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi það sem af er þessu ári. Fjölmennasta þjóðernið eru einstaklingar með tengsl við Úkraínu eða 761 en þar á eftir koma 250 einstaklingar með tengsl við Venesúela.

Aldrei fleiri sótt um vernd á einu ári

Þann 11. apríl var met slegið í heildarfjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi en aldrei áður hafa jafn margar umsóknir borist á einu ári, að sögn landamærasviðs ríkislögreglustjóra. Árið 2016 var heildarfjöldi umsókna 1.132 en 11. apríl var heildarfjöldi umsókna kominn í 1.135.

Í gær höfðu 4.717.172 einstaklingar flúið stríðsátökin í Úkraínu til nágrannaríkja í Evrópu. Gert er ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem eru að flýja stríðsátökin mun halda áfram aukast. Alþjóðaflóttamannastofnunin áætlar nú að allt að 5 milljónir einstaklinga muni flýja en stofnunin hafði áður áætlað að sá fjöldi yrði nálægt 4 milljónum. Þá segir stofnunin að 6,5 milljónir óbreyttra borgara séu á flótta innan landamæra Úkraínu.


Tengdar fréttir

Aldrei fleiri sótt um hæli

Ríflega ellefu hundruð manns hafa sótt um hæli Íslandi það sem af er ári en aldrei hafa fleiri sótt um hæli hér á landi. Af þeim sem sótt hafa um eru sjö hundruð þrjátíu og fimm frá Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×