Þar kemur í ljós að 98 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni eru með reykskynjara á heimilinu, 86 prósent með slökkvitæki og 75 prósent með eldvarnarteppi. Þá eru 54 prósent með þrennar brunavarnir á heimilinu, 29 prósent með tvennar og aðeins tólf prósent með eina brunavörn.
Fram kemur í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að niðurstöðurnar gefi til kynna að brunavarnir séu góðar á mörgum heimilum.
„Það er jákvætt að fólk hugar að ástandi brunavarna heima fyrir og sé meðvitað um flóttaleiðir og aðgengi að slökkvitækjum,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.
Þá segir að ekki sé nóg að hafa eldvarnartæki á heimilinu, þau þurfi líka að virka, vera sýnileg og fólk þurfi að kunna að nota þau tæki sem eru til staðar.
„Mikilvægt er að setja upp flóttaáætlun og skipuleggja flóttaleiðir á heimilinu, ræða málin með öllum íbúum heimilisins um það hvernig við bregðumst við bruna. Það er áhugavert að rýna niðurstöður könnunarinnar og afar ánægjulegt að sjá að mikil vitundarvakning hefur átt sér stað um brunavarnir heimilanna en betur má ef duga skal.“