Innlent

Skíð­logar enn í flokkunar­stöðinni: „Það er hellings eldur enn þá í þessu“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Það skíðlogar enn í hreinsistöðinni.
Það skíðlogar enn í hreinsistöðinni. Aðsend

Mikill eldur logar enn í flokkunarstöð í Reykjanesbæ en eldurinn kviknaði skömmu fyrir hádegi í dag. Varðstjóri gerir ráð fyrir því að slökkvistarf geti staðið fram til morguns.

Bruninn varð í flokkunarstöð Íslenska Gámafélagsins við Helguvík. Mikinn reyk lagði yfir svæðið og lögregla varaði við því að reykurinn væri afar eitraður. Íbúar í Garði voru beðnir um að vera skjólmegin við reykinn og loka gluggum.

Víkurfréttir birtu myndband af eldsvoðanum á Facebook síðu sinni þar sem eldhafið í kvöld sést greinilega.

Slökkviliðið viðraði áhyggjur af því að eldurinn kæmist í stóran timburhaug sem stóð við húsið og það virðist einmitt hafa gerst, sem torveldar slökkvistarf töluvert. 

„Það er spýtnahrúga, sem þeir eru eitthvað að endurnýta, og þetta er bara risafjall af spýtum sem logar í og eldurinn fór í í dag. Það er bara verið að krabba og bleyta og bleyta og bleyta. Þannig að við erum alveg með töluverðan mannskap og tankbíl líka frá Grindavík,“ segir Herbert Eyjólfsson varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja.

Hann segir að húsið sé löngu orðið handónýtt og nú snúist slökkvistarfið að því að slökkva í timburhaugnum. Til þess noti slökkviliðið vinnuvélar, losa viðinn og brakið í sundur til að hægt sé að koma vatni að.

„Það logar alveg rosalega í þessu. Þannig að það er bara hellings eldur enn þá í þessu. Við verðum örugglega alveg til morguns og inn í daginn líka,“ segir Herbert.

Aðspurður hefur hann ekki áhyggjur af því að eldur fari yfir í nærliggjandi hús en eldur hefur eitthvað borist í gróður við flokkunarstöðina. Það hafi þó verið slökkt jafnóðum.

Mikinn reyk lagði yfir svæðið í dag og í kvöld.Lögreglan á Suðurnesjum

Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.