Innlent

Óttast að umfjöllun hræði verðandi foreldra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigurður Guðjónsson, þvagfæraskurðlæknir.
Sigurður Guðjónsson, þvagfæraskurðlæknir. Samsett

Skurðlæknir segir óvægna umræðu í kjölfar Kveiksþáttar um konu sem örkumlaðist við fæðingu skaðlega og geti fælt konur frá því að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Honum sárnar útreiðin sem heilbrigðisstarfsfólk hafi þurft að þola. Verkferlar verði að ráða för í kerfinu, ekki duttlungar einstaklinga.

Grein eftir Sigurð Guðjónsson þvagfæraskurðlækni birtist á Vísi í gærkvöldi undir titlinum Ég styð ljósmæður. Greinin hefur hlotið mikla dreifingu en í henni gagnrýnir Sigurður meðal annars fjölmiðlaumfjöllun síðustu viku, eftir að fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um mál konu sem örkumlaðist við fæðingu. 

Sigurður áréttar að læra eigi af slíkum tilfellum og hann finni mjög til með þeim konum sem í þeim hafi lent - en umfjöllun hafi verið einhliða og ófagleg.

„Ég óttast það að þetta hræði verðandi foreldra mikið, svona umfjöllun. Og að koma hræddir inn í fæðingu er engum til góðs,“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu.

Gerendavæðing hættuleg þróun

Þá hafi honum þótt aðkoma Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra, sem sagði sögu sína af erfiðri fæðingu í Kastljósi og taldi ekki hafa verið á sig hlustað, óviðeigandi.

„Þá sárnar manni að svona sé komið fram við stéttir sem eru að reyna að hjálpa öðrum, gera fólk á einhvern hátt að gerendum og sjúklingar orðnir að þolendum. Sem mér finnst mjög hættuleg þróun.“

Rétt væri að benda á árangur þeirra 4000 fæðinga sem verða á Íslandi ár hvert og gæðasamanburð við önnur lönd í þeim efnum - sem komi vel út fyrir Ísland.

„Ég held að verkferlar og fagleg vinnubrögð verði að stýra okkur í heilbrigðiskerfinu. Það er ekki hægt að fara eftir öllum duttlungum einstaklinga,“ segir Sigurður.

„Það þarf ekki að vera neinum að kenna þó að útkoman sé ekki sú besta í hvert skipti.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.