Innlent

Ör­kumlaðist við barns­burð og ætlar að stefna ríkinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Kona sem örkumlaðist við barnsburð hyggst stefna ríkinu vegna læknamistaka sem hún segir hafa átt sér stað við fæðinguna.

Þetta kom fram í Kveik á RÚV í kvöld. Þar segir að tíundi hver sjúklingur í heilbrigðiskerfinu sé talinn verða fyrir mistökum, vanrækslu eða óhappi af einhverju tagi við meðferð sína. Árlega séu skráð yfir tíu þúsund atvik á heilbrigðisstofnunum landsins þar sem sjúklingar urðu fyrir heilsutjóni eða hefðu getað orðið fyrir því, af áðurnefndum ástæðum.

Fannst ekki vera hlustað á sig

Konan sem nú hyggst leita réttar síns gagnvart ríkinu heitir Bergþóra Birnudóttir og er í umfjöllum Kveiks lýst sem „hraustri og virkri fjölskyldukonu,“ áður en hún örkumlaðist.

Hún varð ólétt í þriðja sinn árið 2015, þá 37 ára gömul. Eftir aðeins sextán vikna meðgöngu fékk hún grindargliðnun, sem var svo slæm að hún þurfti að hætta að vinna. Hún hafi síðan stækkað hratt og líðan hennar hrakað mikið á næstu vikum.

Þegar 28 vikur hafi verið liðnar af meðgöngunni hafi hún þá átt erfitt með að hreyfa sig, og fundið að eitthvað mikið væri að. Hún hafi hitt fæðingarlækni sem hún tjáði að sér þætti ólíklegt að hún gæti klárað 40 vikna meðgöngu. Hún hefði áður gengið með stór börn, en þetta væri ekki eðlilegt.

Hún hafi hins vegar fljótt fengið á tilfinninguna að áhyggjur hennar væru ekki teknar alvarlega, og henni síðan tjáð að fæðing væri almennt ekki framkölluð vegna grindargliðnunar, nema í alvarlegustu tilfellum.

Aðferð sem mælt er gegn að nota 

Eftir fæðingu, sem var framkölluð með gangsetningu eftir tæplega 41 viku meðgöngu, hafi síðan komið í ljós að dóttir Bergþóru væri með meðfætt ofvaxtarheilkenni.

Hún segir ljósmóðurina hafa beitt svokallaðri „manual fundal pressure“ aðferð til að koma barninu út. Aðferðin feli það í sér að ljósmóðirin setji allan sinn líkamsþunga ofan á hana til þess að ýta á eftir barninu, til að koma því út. Ekkert sé hins vegar skráð í fæðingarskýrsluna um að aðferðinni hafi verið beitt, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir gegn beitingu hennar. Það er vegna skaða sem móður og barn geta beðið af aðferðinni.

Við fæðinguna hlaut Bergþóra þriðju gráðu spangartætingu, sem er þegar konur rifna í fæðingu upp í endaþarm. Slíkt getur haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar. Eins beið hún skaða á vöðvum og taugum í grindarbotni og endaþarmi, auk þess sem fjarlægja þurfti neðsta hluta ristils hennar.

Bergþóra þjáist enn af miklum taugaverkjum og verkjum í spjaldhrygg og mjaðmagrind. Hún á þá erfitt með að ganga og sitja og er algerlega óvinnufær.

Vill að hægt sé að læra af sögu hennar

Sjúkratryggingar Íslands greiddu Bergþóru hámarksbætur vegna þess skaða sem hún hlaut, 10,8 milljónir króna. Sumarið 2016 sendi hún Landlæknisembættinu kvörtun vegna vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu, en fékk svar tveimur og hálfur ári seinna þar sem fram kom að samkvæmt áliti landlæknis hefði vanræksla ekki átt sér stað.

Bergþóra segjast með málsókn sinni á hendur ríkinu vilja fá viðurkenningu á þeim mistökum sem hún telur hafa átt sér stað. Hún vilji í allri einlægni að hægt sé að læra eitthvað af máli hennar, og þess vegna hafi hún ákveðið að segja sögu sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×