Innlent

Hentu pizzu í starfsmann og flúðu áður en lögreglan kom

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ætli sumir hafi ekki notið pizzusneiðar betur en aðrir í gærkvöldi.
Ætli sumir hafi ekki notið pizzusneiðar betur en aðrir í gærkvöldi. Getty/Artur Widak

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út á ellefta tímanum í gærkvöldi vegna tveggja sem höfðu kastað pizzasneið í starfsmann á veitingastað í Múlunum í Reykjavík. Tvíeykið flúði áður en lögreglu bar að garði.

Talsvert var um að vera hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Lögreglu bárust tilkynningar um tvær líkamsárásir, báðar í miðborginni. Tilkynnt var um þá fyrri um korter í tvö í nótt og var árásarþoli með áverka á andliti. Einn var handtekinn og er málið í rannsókn. Hin líkamsárásin var tilkynnt klukkan hálf þrjú en engar frekari upplýsingar liggja fyrri um málið að svo stöddu.

Þá segir í dagbók lögreglu í morgun að maður í annarlegu ástandi hafi verið látinn gista fangageymslur í nótt en tilkynnt hafði verið um hann á fimmta tímanum í nótt eftir að hann hrækti á dyravörð á skemmtistað í miðbænum. Maðurinn var óviðræðuhæfur og því látinn gista í fagnageymslu.

Þá barst lögreglu tilkynning á tíunda tímanum um grunsamlegar mannaferðir. Mennirnir grunsamlegu reyndust unglingspiltar á röltinu með hafnarboltakylfu, sem átti sér allt eðlilegar skýringar. 

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra var þar að auki á rúntinum án þess að hafa fengið bílpróf. Þá var einn til viðbótar stöðvaður í almennu umferðareftirliti og reyndist próflaus. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×