Björn Snæbjörnsson fyrrverandi formaður Starfsgreinasambandsins tilkynnti að hann hygðist hætta formennsku í lok þessa mánaðar eftir 12 ára formannssetu. Kosningar hófust á þingi sambandsins klukkan 17 í Hofi á Akureyri í dag og standa fram á föstudag.
Tveir hafa boðið sig fram til formanns. Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Þakklátur fyrir stuðning
„Það skiptir miklu máli að vera með stuðning eins og frá Sólveigu Önnu Jónsdóttur og hennar fólki, alla vega að stórum hluta til. Og svo veit ég að ég hef stuðning frá Húsavík og Grindavík og jafnvel víðar, þannig þetta verður bara spennandi,“ segir Vilhjálmur í samtali við fréttastofu og bætir við að úrslitin verði að koma í ljós.
Hann segir að sínar áherslur séu að byggja komandi kjaraviðræður á sama grunni og gert var í lífskjarasamningnum. Sá samningur hafi heilt yfir verið góður handa lágtekjufólki enda hafi tekist að semja eingöngu með krónutölum. Það leggi hann mikla áherslu á.
„Það er algjörlega útilokað mál að vera með lágmarkskjör þar sem að fólk getur ekki haldið mannlegri reisn og framfleytt sér frá mánuði til mánaðar. Það er bara útilokað mál,“ segir Vilhjálmur.
Geti unnið með öllum
Aðspurður kveðst hann ekki boða hallarbyltingu innan sambandsins, nái hann kjöri, enda telur hann sig geta unnið með öllum.
„Ég tel það mjög brýnt að formaður í Starfsgreinasambandinu geti verið formaður allra stéttarfélaga sem eiga aðild að stéttarfélaginu. Ég held að ég sé alveg fullfær um að gera slíkt. Ég hef alla tíð sýnt það að ég geti unnið með öllum og það er bara mikilvægt að við náum að stilla saman strengi okkar fyrir erfiðar kjaraviðræður sem munu hefjast mjög fljótlega,“ segir Vilhjálmur.