Innlent

Lóan er komin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lóan er af mörgum talin merki þess að íslenska vorið sé formlega komið.
Lóan er af mörgum talin merki þess að íslenska vorið sé formlega komið. Getty

Lóan, vorboðinn ljúfi, er komin til landsins.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands.

„Fyrstu heiðlóur ársins sáust í dag, 5 fuglar á túni við Grænahraun í Nesjum, ein í Gaulverjabæ og 7 í Grunnafirði,“ segir í færslu félagsins.

Það er vel við hæfi að lóan láti sjá sig í dag en jafndægur að vori var einmitt í dag, klukkan 15:33. Jafndægur er sú stund ársins kölluð þegar sól er beint yfir miðbaugi jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári, á vorjafndægri og haustjafndægri. Í dag er jafndægur að vori en þá er dagurinn um það bil jafn langur nóttinni hvar sem er á jörðinni – og af því er nafnið dregið.

Á síðasta ári var lóan ekki jafn snemma á ferðinni, en þá bárust fyrstu fregnir af lóunni þann 28. mars, í fjörunni á Stokkseyri.

Líkt og áður sagði er lóan af mörgum talinn helsti vorboði Íslendinga, með vísan til ljóðs Páls Ólafssonar sem margir Íslendingar kannast við, og kunna jafnvel utanbókar:

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,

að kveða burt leiðindin, það getur hún.

Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,

sólskin í dali og blómstur í tún.

Hún hefir sagt mér til syndanna minna,

ég sofi of mikið og vinni ekki hót.

Hún hefir sagt mér að vakna og vinna

og vonglaður taka nú sumrinu mót.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×