Innlent

Líst vel á að Kjal­nesingar fái að kjósa um sjálf­stæði

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigurður Ingi segir að íbúar sveitarfélaga eigi að fá meira að segja um framtíð sína.
Sigurður Ingi segir að íbúar sveitarfélaga eigi að fá meira að segja um framtíð sína. Stöð 2/Egill

Inn­viða­ráð­herra líst vel á að Kjal­nesingar fái að kjósa um það hvort þeir slíti sig frá Reykja­víkur­borg sam­hliða sveitar­stjórnar­kosningum í vor. Það myndi þó hugnast honum best að hverfið yrði á­fram hluti af Reykja­vík en í­búar ættu að hafa sitt að segja um það.

Kjal­nesingar hafa hrundið af stað undir­skrifta­söfnun þar sem þess er krafist að þeir fái að kjósa um fram­tíð sína sam­hliða sveitar­stjórnar­kosningunum. Þar eru uppi hug­myndir um að endur­reisa sveitar­fé­lagið Kjalar­nes­hrepp, sem sam­einaðist Reykja­vík árið 1998, eða að sam­einast frekar nær­liggjandi sveitar­fé­lögum; Mos­fells­bæ eða Kjósar­hreppi.

Vill stærri og öflugri sveitarfélög

Þessar hug­myndir falla ekki illa í kramið hjá inn­viða­ráð­herra.

„Ég hef svo sem ekki kynnt mér þær ná­kvæm­lega en það er auð­vitað þannig að við höfum verið að virða rétt sam­fé­laga sveitar­fé­laga. Við höfum hins vegar verið að hvetja til að þau verði stærri og öflugri. Þannig að þetta er nú skref í hina áttina ef þeir ætluðu að fara að verða sjálf­stætt sam­fé­lag,“ segir Sigurður Ingi Jóhanns­son inn­viða­ráð­herra.

Hann er þó ekki mót­fallinn því að Kjal­nesingar kjósi um þetta at­riði í vor.

„Nei, ég held við eigum að gera meira af því að leita til íbúa um í­búa­sam­ráð og í­búa­kosningar og við erum reyndar með slík mál í vinnslu,“ segir Sigurður Ingi.

Lofar því að Sundabrautin verði að veruleika

Spurður hvort ekki sé eðli­legra að Kjalar­nes til­heyri sveitar­fé­lagi sem það á bæjar­mörk við en ekki Reykja­vík sem er tals­vert í burtu segir hann það vel geta verið.

Kjalarnesið er stærsta en jafnframt fámennasta hverfi Reykjavíkurborgar. Mosfellsbær skilur Kjalarnesið frá hinum hverfunum.vísir

Þó hafi Sunda­brautin alltaf skipt höfuð­máli þegar Kjal­nesingar á­kváðu að sam­einast Reykja­vík. Þeim var lofað að brautin yrði lögð fyrir 2002 en nú tveimur ára­tugum síðar bólar enn ekkert á fram­kvæmdinni.

Ráð­herrann lofar þó að hún muni hefjast á næstunni.

„Já, ég get lofað því að hún verður því hún er kominn í öruggan far­veg og við ætlum að setja hana af stað. Hún er mikil­væg öryggis- og sam­göngu­bót á höfuð­borgar­svæðinu; aug­ljós­lega fyrir Kjal­nesinga og reyndar allt Vestur- og Norður­landið,“ segir Sigurður Ingi Jóhanns­son inn­viða­ráð­herra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×