Innlent

Heilbrigðisráðherra minnir fólk á sinna persónubundnum sýkingavörnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kórónuveirufaraldurinn er ekki búinn, eru skilaboð Stjórnarráðsins.
Kórónuveirufaraldurinn er ekki búinn, eru skilaboð Stjórnarráðsins. Vísir/Vilhelm

„Við þurfum öll að sýna ábyrgð með hegðun okkar þar til bylgja faraldursins gengur yfir,“ er haft eftir Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, þar sem fólk er hvatt til að sinna persónubundnum sýkingavörnum.

Í tilkynningunni segir að þótt öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi verið aflétt 25. febrúar síðastliðinn sé kórónuveirufaraldurinn ekki genginn yfir. Fjöldi einstaklinga greinist dag hvern og heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi.

„Almenningur getur haft mikil áhrif á útbreiðslu smita með hegðun sinni. Fólk er því hvatt til að gæta vel að einstaklingsbundnum sýkingavörnum,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að nýgengi smita sé enn hátt í samfélaginu og hafi víða áhrif. Mönnun heilbrigðiskerfisins hafi verið og sé enn mikil áskorun vegna veikinda starfsfólks og það gildi jafnt um heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili, heimahjúkrun og skylda þjónustu.

Willum segir mikilvægt að fólk viðhafi varúð og sýni tillitsemi í samskiptum við einstaklinga sem tilheyri viðkvæmum hópum, til að mynda öldruðum og einstaklinum með bælt ónæmiskerfi. 

„Ég hvet fólk til leggja þannig sitt af mörkum til að vernda viðkvæma hópa og verja heilbrigðiskerfið fyrir miklu álagi,“ segir ráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.