Innlent

„Þetta er upp­á­halds­dagurinn minn“

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Valgerður María Gunnarsdóttir verslunarstjóri segir daginn þann skemmtilegasta ársins.
Valgerður María Gunnarsdóttir verslunarstjóri segir daginn þann skemmtilegasta ársins. Stöð 2

Öskudagurinn er á morgun og landsmenn, ungir sem aldnir, flykkjast í þartilgerðar búðir að kaupa búninga fyrir morgundaginn. Mikið var að gera í Partýbúðinni þegar fréttamaður leit við fyrr í kvöld en þar er opið til miðnættis. Verslunarstjóri segir fólk eins og beljur á vori.

Valgerður María Gunnarsdóttir, verslunarstjóri Partýbúðarinnar og íklædd SWAT lögreglubúningi í tilefni öskudagsins, segir gríðarlega stemningu hafa verið í dag. Þetta sé einn stærsti dagur ársins. Búningar úr sjónvarpsþáttaröðinni Squid game hafa verið hvað vinsælastir í aðdraganda öskudags en þó sé af nægu að taka.

„Squid game var rosalega vinsælt, við erum búin með búningana en eigum nóg af grímum. Svo er búið að vera eitthvert algjört Spiderman-æði. Og svo náttúrulega allt svona matarkyns: bananar, pylsur, tómatsósuflöskur, egg og beikon, samlokur, þetta er búið að vera mjög vinsælt,“ segir Valgerður María.

Hún segir frábært að sjá gleðina í börnunum og tilhlökkunin sé eðli málsins samkvæmt mikil.

„Ég held að við séum bara eins og beljur á vori. Þessar takmarkanir voru kannski að koma verst niður á þessum grunnskólakrökkum og núna fá þau loksins að gera eitthvað aftur, þetta er búið að vera mjög erfitt.“

Hvernig er að vera starfsmaður á þessum degi, er þetta ekki besti dagur í heimi?

„Jú, þetta er uppáhaldsdagurinn minn. Ég er að norðan þannig að öskudagurinn er minn dagur.“

Aðspurð hvers vegna svona mikið sé að gera klukkan sjö að kvöldi er svarið einfalt:

„Þetta er bara íslenska leiðin, það er bara þannig. Það er opið til miðnættis þannig að það verður nóg handa öllum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×