Innlent

Verkaði 2,5 tonn af salt­kjöti sem fólk hámaði í sig

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sprengidagurinn er í dag og þá á maður að háma í sig saltkjöt og baunir.
Sprengidagurinn er í dag og þá á maður að háma í sig saltkjöt og baunir. vísir

Gestir Múlakaffis hámuðu í sig saltkjöt og baunir í tilefni sprengidags. Yfirkokkurinn verkaði tvö og álft tonn af saltkjöti og sögðu gestir vel þess virði að vakna á morgun með bjúg eftir saltneyslunna.

Röð myndaðist fyrir utan Múlakaffi í hádeginu í dag enda sprengidagur og fólk vitlaust í saltkjöt og baunir. 

Er þess virði að bíða í röð eftir matnum?

„Það held ég.  Óðir í saltkjöt og baunir. Ég ætla að springa,“ sögðu Björn Áki og Lambi.

Hvernig smakkast?

„Þetta er alveg rosalega gott,“ sagði Sæmundur.

„Ég kem árlega hingað og hef gert í fimm ár,“ sagði Ingibjörg Ásta Bjarnadóttir.

Félagarnir voru gríðarlega ánægðir með matinn.stöð2

„Eins og hjá mömmu í gamla daga“

Besta saltkjötið í bænum? 

„Besta saltkjötið í bænum, klárlega,“ sagði Ingibjörg.

„Þetta er algjörlega ómissandi. Fastur liður og þetta er bara eins og hjá mömmu í gamla daga. Það er bara þannig,“ sagði Þór.

Það eru góð meðmæli? 

„Geggjuð meðmæli. Jói [Jóhann í Múlakaffi] kann þetta allt,“ sagði Þór sem var boðinn í annað saltkjötsboð eftir hádegi.

„Ég fer í seinni umferðina þá. Þetta er einu sinni á ári og af hverju ekki að njóta þess. Þetta er sprengidagurinn,“ sagði Þór.

Já og þá á maður að springa. Yfirkokkurinn hafði varla tíma til að líta upp úr pottunum enda brjálað að gera.

Guðjón Harðarson, yfirkokkur á Múlakaffi eldaði tvo og hálft tonn af saltkjöti og segir að allur matur fari út.stöð2

Er þetta einn af stærstu dögum ársins? 

„Já þetta er annar af okkar stærri dögum á árinu. Svo eru það Þorláksmessan. Þetta eru okkar dagar,“ sagði Guðjón Harðarson, yfirkokkur á Múlakaffi.

Hvað ertu að verka mikið af kjöti í dag? 

„Tvö og hálft tonn af saltkjöti.“ 

Fer þetta allt ofan í maga fólks? 

„Já það verður lítið eftir í kvöld.“

Í dag er búið að fara í gegnum þrjá svona potta eins og sjást á myndbandinu. Það er nóg eftir. Það er áætlað að magnið sem Múlakaffi framleiðir fari í magann á fjögur þúsund Íslendingum.

Algjörlega þess virði að fá bjúg eftir daginn.stöð2

Hvernig er líðanin í kvöld þegar saltið leggst í æðarnar? 

„Það er aðallega bjúgurinn á morgnanna sem vinnur á móti þessu, en allt annað en það er bara eintóm unun. Allt þess virði,“ sagði Ingibjörg Ásta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×