Lífið

Langelstur í leikhópnum: „Við eigum að lifa lífinu lifandi“

Elísabet Hanna skrifar
Aðalleikkonurnar í sýningunni, Nína Tamimi og Iðunn Stefánsdóttir, eru sjö ára gamlar og skipta þær með sér hlutverki Eyju í vetur. Siggi Sigurjóns leikur Rögnvald.
Aðalleikkonurnar í sýningunni, Nína Tamimi og Iðunn Stefánsdóttir, eru sjö ára gamlar og skipta þær með sér hlutverki Eyju í vetur. Siggi Sigurjóns leikur Rögnvald. Vísir/Vilhelm

Söngleikurinn Langelstur að eilífu verður frumsýndur í Gaflaraleikhúsinu um helgina þar sem Siggi Sigurjóns og Iðunn Eldey Stefánsdóttir fara með hlutverk Rögnvalds og Eyju. Iðunn deilir hlutverki Eyju með Nínu Sólrúnu Tamimi en tvöfaldur leikhópur er fyrir öll barnahlutverkin.

Söngleikurinn er byggður á bókum Bergrúnar Írisar

Söngleikurinn er byggður á vinsælum verðlaunabókum Bergrúnar Írisar og fjallar um Rögnvald og Eyju sem  verða bestu vinir þrátt fyrir níutíu ára aldursmun. Bókin hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2019.

„Þetta er frábær saga sem fjallar um vináttuna í mjög víðum skilningi og fyrir minn smekk er þetta vingjarnleg, mannbætandi hressandi sýning sem kennir okkur það að við eigum að lifa lífinu lifandi.“

Segir Siggi sem er alvanur leikhúsinu. Hann er þó ekki einn með börnunum í leikritinu heldur fara Ásgrímur Geir Logason og Júlíana Sara Gunnarsdóttir með hlutverk foreldranna.

Sjö ára leikkona

Iðunn Eldey fékk hlutverk Eyju eftir að foreldrar hennar bentu henni á prufurnar og hún varð strax mjög spennt fyrir því að fara enda alltaf langað til þess að leika í leikriti. Hún var alsæl að fá hlutverkið og fannst tilfinningin að landa því góð. Sjálf tengir hún vel við hlutverkið sem hún leikur og kann vel við persónuna.

„Ef hún væri til og með mér í bekk, þá held ég að við værum mjög góðir vinir,“ 

segir hún um Eyju. Hún hefur mikinn áhuga á því að leika meira í framtíðinni og nýtur þess vel að vera á æfingum með öllum skemmtilegu meðleikurum sínum og segir þau öll vera mjög góða vini.

Fagna frumsýningunni

Leikritið frestaðist vegna Covid og fengu allir í leikhópnum veiruna, enda mjög samrýmd eins og Siggi orðaði það. Veiran tafði því fyrir uppfærslunni auk samkomutakmarkana. Siggi er spenntur að fagna frumsýningunum um helgina og ætlar hópurinn að lyfta sér upp að þeim loknum. Þar sem tveir leikhópar koma að verkinu eru frumsýningar á laugardaginn og sunnudaginn.

„Við ætlum örugglega að fá okkur pizzu eða eitthvað eftir frumsýningu og ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði gott partý fyrir krakkana.“

Tengdar fréttir

Rögnvaldur hefur fundið Eyjurnar sínar

Búið er að velja leikhópinn fyrir sýninguna Langelstur að eilífu sem sett verður á svið í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Frumsýning barnaleikritsins er 15. janúar næstkomandi. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.