Innlent

Tuttugasta brúðkaupið í dag klukkan 22:00 þann 22.02 2022

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur Grafarvogskirkju hafði í nógu að snúast í dag við að gefa saman pör, 
Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur Grafarvogskirkju hafði í nógu að snúast í dag við að gefa saman pör,  Vísir/Arnar

Þrátt fyrir leiðindaveður nýttu sér margir daginn til að láta gefa sig saman. Í Grafarvogskirkju var haldið hálfgert brúðkaupsmaraþon sem hófst á hádegi og stendur þar til í kvöld. Prestur segir dagsetninguna einstaka.

Tuttugu pör nýttu sér dagsetninguna í dag eða 22. 02 2022 til að láta gefa sig saman í Grafavogskirkju en athafnirnar hófust í hádeginu og stóðu til kl. 22 í kvöld. 

Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur í kirkjunni hafði því í nógu að snúast í dag. 

„Við vorum áðan með par sem kom með dóttur sína með sér sem á 22 ára afmæli í dag.  Hún hélt að þau væru bara að fara út að borða þannig að gifting foreldranna í dag kom henni mjög ánægjulega á óvart,“ segir Arna.

Arna segir að kirkjan hafi byrjað að bjóða upp á slíkt fyrirkomulag í kirkjunni í sumar eftir að fólk hafði þurft að fresta brúðkaupum hvað eftir annað vegna kórónuveirufaraldursins. Hún auglýsir eftir nafni á fyrirkomulagið. 

„Við erum búin að skoða alls konar útfærslur á nafni, hraðbrúðkaup, hnappheldan eða skiptimiðabrúðkaup því hugmyndin var að koma með strætó, fá skiptimiða og fara svo aftur heim á sama miðanum,“ segir Arna sem auglýsir eftir hugmyndum að nafni.

Hún segir daginn minnistæðan fyrir margra hluta sakir. 

„Það er ekki svo oft sem ég er  í fullum skrúða klukkustundum saman eða langt fram á kvöld þannig að kannski má segja að þetta sé brúðkaupsmaraþon,“ segir hún.

Arna segir sjaldgæft að dagsetning sem þessi komi upp og því eðlilegt að hún sé vinsæl.

„Þetta er einstök dagsetning, það er hægt að lesa hana aftur á bak og áfram. Þá er þetta dagsetning sem gott er að muna og fólk velur stundum dagsetningu sem gott er að muna,“ segir Arna að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×