Innlent

Öldur á Garðskaga náðu yfir 30 metra hæð í óveðrinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Öldur náðu nokkrar yfir þrjátíu metra hæð í óveðrinu á mánudag. 
Öldur náðu nokkrar yfir þrjátíu metra hæð í óveðrinu á mánudag.  Vísir/Vilhelm

Öldur við Garðskaga á Suðurnesjum náðu ítrekað yfir þrjátíu metra hæð í óveðrinu sem gekk yfir landið síðdegis á mánudag og aðfaranótt þriðjudags. Með því var met slegið í ölduhæð við Íslandsstrendur en það fyrra var frá árinu 1990.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segið að metið frá árinu 1990 hafi einmitt verið sett á sama stað. 

Öldurnar sem riðið hafi yfir Garðskaga núna í byrjun vikunnar hafi verið svo kröftugar að sú kröftugasta hafi slegið öldumælingardufl út, en hann mæli mest 40 metra ölduhæð og því óvíst hve há aldan var í raun. Heppilegt hafi þó verið að lágstreymt var á þessum tíma og sjávarstaðan því hagstæð. 

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að áður en veðrið skall á hafi ölduspá gert ráð fyrir að mjög háar öldur næðu landgrunni. Líkur voru taldar á að ölduhæð gæti náð sömu hæðum og voru mældar 9. janúar 1990 þegar Garðskagaduflið mældi 25 metra háa öldu, en hún var stök og sú hæsta sem mælst hafði við strendur Íslands á þeim tíma. 

Í óveðrinu hafi alls tíu stakar öldur yfir 25 metra hæð mælst við Garðskaga og fjórar öldur yfir þrjátíu metrum. Eins hafi ein alda mælst sem sprengdi skalann á duflunum, sem er fjörutíu metrar, og því ekki hægt að segja með vissu um að sú mæling sé rétt. 

Verið sé að vinna að frekari greiningu úr ölduduflinu og fá staðsetningu á gæðum gagnanna. Ef rétt reynist gæti aldan, sem sló duflið út, verkið langhæsta mælda aldan við Íslandsstrendur og sennilega með þeim hærri sem mældar hafa verið í heiminum. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×