Fótbolti

Makuszewski: Vonandi verður betra veður í sumar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Maciej Makuszewski gekk til liðs við Leikni R. í gær, en hann á að baki fimm A-landsleiki fyrir pólska landsliðið.
Maciej Makuszewski gekk til liðs við Leikni R. í gær, en hann á að baki fimm A-landsleiki fyrir pólska landsliðið. Vísir/Sigurjón

Leiknir R. tilkynnti nýjan leikmann liðsins fyrir komandi átök í efstu deild karla í knattspyrnu í gær.

Kantmaðurinn Maciej Makuszewski sem skrifaði undir í Breiðholtinu í gær, en hann er 32 ára gamall og var í 35 manna hópi Pólverja fyrir HM í rússlandi árið 2018. Hann á að baki fimm A-landsleiki fyrir pólska landsliðið.

Þjálfari Leiknismanna, Sigurður Heiðar Höskuldsson, segist binda miklar vonir við leikmanninn.

„Hann gefur okkur reynslu og hann gefur okku gæði og hraða fram á við,“ sagði Sigurður í samtali við Stöð 2.

Leikmaðurinn sjálfur telur sig vera að taka rétt skref á sínum ferli með því að ganga til liðs við Leikni.

„Þeir vilja prófa eitthvað nýtt og ég tel þetta gott skref hjá mér,“ sagði Makuszewski. „Ég vona að reynsla mín og gæði nýtist félaginu vel.“

Makuszewski er greinilega ekki hrifinn af veðrinu sem hefur verið á landinu síðustu daga. Hann segist þó ekki láta það á sig fá, en vonast til að það batni með hækkandi sól.

„Vonandi verður betra veður í sumar, en þetta er allt í lagi. Ég skoðaði völlinn og öll félögin hafa gervigras. Þetta er allt í lagi og veðrið í Póllandi er ekkert betra núna svo það skiptir mig ekki máli,“ sagði leikmaðurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×