Innlent

Tugir á biðlistum hjá trans teymum LSH og margir að bíða eftir aðgerð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Formaður Trans Íslands segir lífsnauðsynlegt fyrir trans fólk að komast í aðgerð.
Formaður Trans Íslands segir lífsnauðsynlegt fyrir trans fólk að komast í aðgerð.

Kynleiðréttingaraðgerðum hefur fjölgað töluvert síðustu ár en frá árinu 2010 hafa 85 einstaklingar gengist undir 184 aðgerðir sem flokkast til eða tengjast kynleiðréttingarferlinu.

Þetta kemur fram í svörum Landspítalans við fyrirspurn Vísis.

Meðalaldur einstaklinga sem fóru í kynleiðréttingaraðgerð af einhverjum toga fyrir hvert ár tímabilið 2015 til 2020 var á bilinu 21 árs til 33 ára en miðgildi aldurs fyrir hvert ár á bilinu 20 ára til 27 ára.

Desember er ekki með í tölunum fyrir árið 2021.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að kynleiðréttingaraðgerðir væru lífsnauðsynlegar fyrir trans fólk en tilefnið var Twitter-færsla trans konu, sem sagðist hafa beðið í 60 vikur eftir að komast í aðgerð.

„Það er ótrúlega erfitt að þurfa að setja líf sitt í einhverja biðstöðu, vegna þess að fólk til dæmis sem er trans forðast það að fara í sund eða líkamsrækt eða annað slíkt því það er óöruggt með sinn líkama og það að geta ekki farið í þessar aðgerðir frestar því enn frekar,“ sagði Ugla.

Fleiri en 250 í eftirliti eftir að hafa fengið hormónameðferð

Vísir óskaði eftir upplýsingum um fjölda einstaklinga á biðlista eftir þjónustu hjá trans teymum Landspítalans og fékk þær upplýsingar að 33 biðu þess að komast að hjá trans teymi barna- og unglingageðdeildar (BUGL) og 32 hjá teyminu sem sinnir fullorðnum. 

Skjólstæðingar trans teymis BUGL eru 54 en samkvæmt svörum Landspítalans eru 41 í greiningarferli hjá trans teymi fullorðinna, auk þess sem fagaðilar hitti fleiri trans einstaklinga sem séu ekki í formlegu greiningarferli.

Þess ber að geta að tölurnar eru frá því í nóvember síðastliðnum.

Á innkirtladeild Landspítalans eru fleiri en 250 einstaklingar í eftirliti, sem lokið hafa greiningarferli og hafa fengið hormónameðferð. Hluti þeirra hefur ekki þegið frekari þjónustu.

Í desember biðu fimmtán manns eftir að komast í hormónameðferð.

Biðtíminn eftir aðgerð venjulega tvær vikur til tíu mánuðir

Vísir óskaði einnig eftir upplýsingum um það hversu margir biðu eftir að komast í kynleiðréttingaraðgerð af einhverjum toga og fékk þau svör að biðtíminn væri mjög breytilegur eftir aðgerðum; allt frá tveimur vikum og upp í tíu mánuði.

Þetta ætti þó ekki við um árin 2020 og 2021, þar sem allir biðlistar Landspítalans hefðu lengst í kórónuveirufaraldrinum.

Í desember síðasliðnum biðu þrettán einstaklingar eftir því að komast í brjóstnám, átján í gerð legganga og einn eftir því að komast í uppbyggingu reðurs. Hafa ber í huga að tölurnar endurspegla ekki endilega fjölda einstaklinga, þar sem einn einstaklingur getur verið að bíða eftir fleiri en einni tegund af aðgerð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×