Innlent

Hættustig á Ísafirði og Patreksfirði vegna snjóflóðahættu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hættustigi hefur verið lýst yfir á Ísafirði.
Hættustigi hefur verið lýst yfir á Ísafirði. Vísir/Egill

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi fyrir Vestfirði. Snjóað hefur á svæðinu í norðlægum og austlægum áttum síðan um miðja síðustu viku og vitað er um veikleika í snjóþekjunni. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hvassri NA-átt með snjókomu og síðan éljagangi í dag og fram á morgundag.

Hættustigi hefur verið lýst yfir á Ísafirði þar sem rýmingarreitur 9, undir Steiniðjugilinu, hefur verið rýmdur. Einnig hafa nokkrir sveitabæir verið rýmdir sem og sorpvinnslusvæðið við Funa.

Allmörg snjóflóð hafa fallið á norðanverðum Vestfjörðum síðustu daga og þar af nokkur í Skutlusfirði. Síðast í gær féllu tvö snjóflóð utan við Kirkjubæ og þrjú flóð í Fossahlíð.

Svona var staðan í Súðavíkurhlíð klukkan 10.15 í morgun.Vefmyndavél Vegagerðarinnar

Hluti rýmingarreits 4 á Patreksfirði hefur verið rýmdur og hættustigi lýst yfir. Snjóflóð féllu aðfaranótt mánudags á varnargarða á Patreksfirði. 

Varnargarður ver hluta reitsins en framkvæmdir eru hafnar við garð sem á að verja þann hluta sem nú hefur verið rýmdur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×