Innlent

„Undir­búningurinn sem fram fór um helgina skilaði sér“

Atli Ísleifsson skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

„Þetta hefur gengið mjög vel. Undirbúningurinn sem fram fór um helgina skilaði sér. Það voru allir tilbúnir og gátu brugðist við þeim verkefnum sem hafa komið upp.“

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu um óveðrið sem er nú að mestu gengið yfir á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir nokkur verkefni hafa komið upp sem búið sé að leysa, en svo hafi einnig verið nokkuð um rafmagnstruflanir sem sumar séu enn í gangi.

Spáin rættist

Víðir segir að veðurspáin hafi að stærstum hluta gengið eftir. „Það sem kannski hjálpaði okkur hér í höfuðborginni var að það var örlítið hlýrra þannig að það hefur gengið vel að moka. Efri byggðir og úthverfi; fólk þarf bara að meta það þar, hvort það sé óhætt að fara af stað. En það hefur gengið verl að opna aðalleiðir og stofnbrautir,“ segir Víðir, en Strætó mun svo hefja akstur um klukkan tíu.

„Það er allt að fara af stað, jafnvel fyrr en við reiknuðum með,“ segir Víðir.

Engar tilkynningar um meiriháttar tjón

Vísir segir að ekki hafi borist fréttir af einhverju meiriháttar tjóni. Talsvert sé um fokskemmdir en ekkert stórt sem frést hefur af hingað til.

„Björgunarsveitirnar voru vel mannaðar og tugir útkalla en það hefur gengið vel. Núna er veðrið að ná hámarki á Vestfjörðum og Norðurlandi og svo eru Austfirðir eftir. Það fylgdu langflestir þeim leiðbeiningum sem við vorum með. Fólk var ekkert á ferðinni og meginleiðir voru lokaðar þannig að fólk var ekkert að lenda í stórvandræðum.“

Víðir segir að þó að hvellurinn sé að mestu genginn yfir þá sé áfram von á leiðinlegu veðri. „Svo kemur suðvestanátt, hvöss og jafnvel með dimmum éljum í kjölfarið á Suðvesturlandi. Fólk þarf því að halda áfram að fylgjast með spám. Það verður því áfram röskun.“


Tengdar fréttir

Allt það helsta sem þú þarft að vita vegna óveðursins

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi almannavarna fyrir allt landið vegna aftakaveðurs á morgun, mánudag 7. febrúar. Að neðan má sjá helstu áhrif vegna þessa. Viðbúið er að einhverjar breytingar geti orðið þegar líður á morguninn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×