Innlent

Sýna­tökur og bólu­setning falla niður í fyrra­málið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Vilhelm

Mikil skerðing verður á þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á morgun, vegna ofsaveðursins sem áætlað er að skelli á landinu í nótt. Heilsugæslustöðvar verða þó opnar með lágmarksmönnun, til að sinna bráðaþjónustu.

Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni í samtali við fréttastofu.

„Við ætlum að hafa allt lokað hjá okkur í fyrramálið, nema heilsugæslustöðvarnar. Þar verðum við með lágmarksmönnun og tökum bara við bráðatilfellum. Almenn móttaka fellur niður hjá okkur, en við stefnum að því að sinna bráðaþjónustu á öllum heilsugæslustöðvum,“ segir Ragnheiður.

Bólusetning við Covid-19 sem var fyrirhuguð á morgun fellur þannig niður, sem og sýnataka fyrir Covid á Suðurlandsbraut. Þá fellur þjónusta geðheilsuteyma niður fram að hádegi, sem og önnur almenn þjónustu heilsugæslunnar.

„Það má líka búast við verulegri seinkun á heimahjúkrun en við munum reyna að komast til fólks eins og kostur er,“ segir Ragnheiður.

Hún segir stefnt að því að taka stöðuna um klukkan ellefu á morgun til þess að sjá hvort hægt verði að opna í bólusetningu, sýnatöku og aðra almenna þjónustu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×