Innlent

Voga­menn æfir yfir frum­varpi Sjálf­stæðis­manna um Suðurnesjalínu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þeir Ásmundur og Ásgeir eru sammála um mikilvægi framkvæmdarinnar en greinir á um hvernig sé best að koma henni af stað. 
Þeir Ásmundur og Ásgeir eru sammála um mikilvægi framkvæmdarinnar en greinir á um hvernig sé best að koma henni af stað.  vísir/vilhelm/arnar

Þing­­maður Sjálf­­stæðis­­flokksins hefur lagt fram frum­­varp til að greiða fyrir lagningu Suður­ne­sja­línu 2. Bæjar­­stjóri Voga segir málið frá­­leitt og telur að það myndi skaða traust sveitar­­stjórnar­­stigsins til Al­þingis varan­­lega.

Lagning Suður­ne­sja­línu 2 hefur verið á teikniborðinu í fjölda ára en sveitar­fé­lagið Vogar hefur ekki viljað veita Lands­neti fram­kvæmda­leyfi fyrir loft­línu.

Vogar vilja jarð­streng en hin sveitar­fé­lögin á Suður­nesjum hafa þegar veitt Lands­neti framkvæmdaleyfi fyrir loft­línu.

Fram­kvæmdin hefur því verið í al­geru upp­námi um skeið og úr þessari flækju vill þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins greiða með því að setja lög á fram­kvæmdina.

Það er að segja að færa vald sveitar­fé­lagsins til að veita fram­kvæmda­leyfi úr höndum þess með lögum.

Þingmenn verða að geta tekið erfiðar ákvarðanir

„Suður­nesja­menn eru búnir að bíða í 17 ár eftir að þessi lína verði lögð til að auka hér öryggi í raf­orku­flutningum og auka hér tæki­færi í at­vinnu­lífinu. Þetta er búið að taka allt of langan tíma og það er ekki hægt að gefa lengra svig­rúm í það held ég,“ segir Ás­mundur Frið­riks­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins.

Hann er fyrsti flutnings­maður frum­varpsins en auk hans standa sjö aðrir þing­menn flokksins á bak við frum­varpið auk þing­manna frá Sam­fylkingu, Flokki fólksins og Fram­sóknar­flokki.

Ás­mundur segir frum­varpið neyðar­úr­ræði. Aldrei sé góður kostur að taka skipu­lags­vald af sveitar­fé­lögum en það sé rétt­lætan­legt í ein­staka til­fellum í svo mikil­vægum málu.

„Þrátt fyrir að þetta sé afar þung­bært, að þurfa að ganga þá leið að taka skipu­lags­vald af sveitar­fé­lagi í einu máli, þá held ég að við höfum höfðað til þeirrar á­byrgðar sem þing­menn bera á því að þetta svæði verði ekki út undan í upp­byggingu fram­tíðarinnar,“ segir Ás­mundur.

„Þing­menn þurfa stundum að gera meira en gott þykir og hafa kjark til að taka erfiðar á­kvarðanir, eins og er í þessu máli.“

Lögin hefðu hrikalegar afleiðingar

Bæjar­stjóri Voga er gríðar­lega ó­sáttur með málið og telur frá­leitt að setja lög á fram­kvæmdina.

„Ég hef ein­fald­lega sagt að það sé brýnt að leita leiða til þess að komast að sam­komu­lagi um það hvernig eigi að leysa málið. Og ég tel það ein­fald­lega frá­leitt að það sé bara farin sú leið að setja lög á það þegar ekki er einu sinni hægt að klára samningana við borðið,“ segir Ás­geir Ei­ríks­son, bæjar­stjóri Voga. 

Hann bendir á að enn eigi eftir að ná samkomulagi við landeigendur á svæðinu og þó að lögin yrðu samþykkt væri það verkefni enn eftir. 

Hann segir al­ger­lega ó­um­deilt að línan verði að vera lögð til að tryggja raf­orku­öryggi á Suður­nesjum. Menn greini að­eins á um réttu leiðina til þess, en sem fyrr segir eru Voga­menn harðir á því að fá línuna í jörðu.

Ef Al­þingi setti lög á fram­kvæmdina myndi það hafa hrika­legar af­leiðingar.

„Þetta myndi auð­vitað bara setja í upp­nám allt sveitar­stjórnar­stigið gagn­vart lög­gjafar­valdinu og það myndi bresta það gagn­kvæma traust sem ríkir þar á milli,“ segir Ás­geir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×