Innlent

Skoða hvort hægt sé að ráðast í frekari til­slakanir á föstu­daginn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Willum Þór Þórsson er heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson er heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir að hann muni nýta næstu daga til að ræða við sóttvarnalækni og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana um hvort hægt verði að ráðast í frekari tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum vegna Covid-19 næstkomandi föstudag.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld þar sem Willum Þór var meðal annars spurður að því hvort að til greina kæmi að taka hraðari og stærri skref í átt að afléttingum, en gert er ráð fyrir í afléttingaráætlun stjórnvalda, sem kynnt var síðasta föstudag.

„Já, það kemur alveg til greina. Ég skil alveg þessa umræðu. Þetta eru inngrip í svo margt í okkar lífi og við munum alveg sannarlega gera frekari afléttingar og fyrr og á næstu dögum,“ sagði Willum Þór.

Samhliða kynningu afléttingaráætlunarinnar síðastliðinn föstudag, sem gerir ráð fyrir því að öllum aðgerðum verði hætt frá og með 14. mars næstkomandi, var slakað á sóttvarnaraðgerðum þannig að fimmtíu mega koma saman, auk ýmissa annarra tilslakana.

Afléttingaráætlunin gerir ráð fyrir að næsta skref verði stigið þann 24. febrúar. Willum Þór segir þó að mögulega verði frekari tilslakanir kynntar næstkomandi föstudag, þó ekki sé hægt að slá því föstu eins og sakir standa.

„Ég reikna með að ég muni nýta tímann núna í þessu samtali, bæði við heilbrigðisstofnanir um allt land, spítalann og samtal við sóttvarnalækni um það hvort að á föstudaginn ég geti komið með einhverjar tilslakanir en það er bara of snemmt að fullyrða um það núna,“ sagði Willum Þór.

Einnig til skoðunar að draga úr aðgerðum á landamærum fyrr

31 liggur nú inni á Landspítalnum með Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu. 10.817 eru í einangrun vegna Covid. Til marks um betri stöðu í baráttunni við kórónuveirunar var Landspítalinn færður af neyðarstigi yfir á hættustigi í dag, auk þess sem að almannavarnastig var einnig fært niður um samsvarandi skref.

Í fréttum RÚV í kvöld kom einnig fram að Willum Þór telji fulla ástæðu til að endurskoða gildistíma sóttvarnaraðgerða á landamærunum. Þar eru farþegar nú krafðir um neikvætt Covid-próf eða látnir fara í PCR-próf. Sú ráðstöfun gildir út febrúarmánuð en sagði Willum Þór að verið væri að meta það hvort að hægt væri að stytta þann gildistíma.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×