Tónlistarmennirnir Neil Young og Joni Mitchell óskuðu eftir því í vikunni að tónlist þeirra yrði fjarlægð af streymisveitunni og sögðu Spotify hafa leyft dreifingu falsfrétta um kórónuveirufaraldurinn og bólusetningar gegn veirunni.
Kveikjan var umdeildur þáttur í hlaðvarpi Joe Rogan, þar sem hann fékk til sín smitsjúkdómalækni sem mótmælt hefur bólusetningum barna gegn veirunni. Á þriðja hundrað heilbrigðisstarfsmanna og vísindafólks hefur auk þess gagnrýnt streymisveituna vegna þáttarins en streymisveitan á réttinn að hlaðvarpinu, sem hún tryggði sér árið 2020 og borgaði rúmar 100 milljónir Bandaríkjadala fyrir.
Harry og Meghan hafa gert samning við Spotify um framleiðslu hlaðvarpsþáttar, sem verður aðeins sendur út á Spotify. Það er aðeins hluti þeirra samninga sem hjónin gerðu við hina ýmsu framleiðendur eftir að þau sögðu skilið við bresku konungsfjölskylduna árið 2020.
„Hundruð milljóna manna verða fyrir áhrifum þeirra alvarlegu afleiðinga sem falsfréttir hafa í för með sér. Síðasta apríl lýstum við yfir áhyggjum við Spotify vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem dreifing falsfrétta á streymisveitunni hafa,“ sagði talsmaður Archewell stofnunarinnar, stofnunar Meghan og Harry, í yfirlýsingu í dag.
„Við höldum áfram að lýsa yfir áhyggjum okkar við Spotify til þess að tryggja að breytingar verði gerðar til að alvarleiki málsins verði gerður skýr á streymisveitunni. Við vonum að Spotify muni koma til móts við okkur og við erum tilbúin til að halda áfram að starfa með veitunni.“