Tónlist

Daði Freyr bugaður eftir Euro­vision en ný tón­list á leiðinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Daði Freyr stefnir á að gefa út plötu á þessu ári.
Daði Freyr stefnir á að gefa út plötu á þessu ári. Vísir/Vilhelm

Daði Freyr er kominn af stað í tónsmíðum á ný eftir að hafa verið á tónleikaferðalagi seinni hluta síðari árs. Hann segist fyrst nú vera að ná áttum á ný eftir Eurovision ævintýrið.

Í færslu á Instagram segir Daði að Eurovision hafi tekið meiri toll af honum en hann hafi viljað viðurkenna og að hann hafi ekki áttað sig á að hann hafi verið búinn að vinna alltof mikið. Það hafi því tekið hann tíma að byrja að semja tónlist á ný. 

Þá segir hann að eftir flutninga og fjölgun í fjölskyldunni finnist honum hann vera orðinn hann sjálfur á ný, en Daði og Árný kona hans eignuðust stúlku í september. Hún er þeirra annað barn.

Daði og Gagnamagnið lentu í 4.sæti í Eurovision síðasta vor þegar keppnin var haldin í Rotterdam en gátu ekki komið fram á sviði þar sem einn meðlimur hljómsveitarinnar greindist með kórónuveiruna. 

Í færslunni kemur fram að Daði sé að vinna að nýrri tónlist í stúdíói sem hann hefur komið upp heima hjá sér en hann segist hafa búið til mest allt af sinni tónlist heima. Hann segist hlakka til að sýna fólki afraksturinn þó enn sé eitthvað í útgáfuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×