„Það er gömul saga og ný að Íslendingar séu leiðandi á Norðurlöndum í hvers kyns lyfjanotkun. Árið 2018 var fimmta hver kona á Íslandi á þunglyndislyfjum, 11.000 einstaklingar á svefnlyfjum og notkun hættulegra róandi efna eins og Oxycontin hefur aukist til muna síðustu ár,“ sagði Eva Sjöfn Helgadóttir, þingmaður Pírata, í pontu Alþingis undir störfum þingsins í gær. Eva Sjöfn undirstrikar í ræðu sinni þær upplýsingar sem fram komu í Kompás á mánudag, að fjöldi Oxycontin-notenda á Íslandi hafi margfaldast síðasta áratug.
Börn, fullorðnir og gamalmenni á geðlyfjum
„Ég krefst þess að það verði eitthvað gert í þessum málum eins og skot.“
„Á hjúkrunarheimilum árið 2018 var geðlyfjanotkun 55% og þar af leiðandi er meira en helmingur þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum á einu eða fleiri geðlyfjum.“ Eva Sjöfn benti líka á mikla tauga- og geðlyfjanotkun barna á Íslandi og segir þjóðina á rangri leið varðandi notkun þeirra, í ljósi þess að við séum Norðurlandameistarar í því sem leiði til mikils fjölda ótímabærra dauðsfalla.
Biðlistarnir ástæða mikillar lyfjanotkunar
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ræddi um sama mál.
„Fram kemur í nýlegri frétt að aldrei hafi fleiri Íslendingar leyst út jafn margar tegundir ávanabindandi lyfja og á síðasta ári. Þar kemur einnig fram að almenningur hér á landi notar sömuleiðis mun meira af sterkum verkja-, tauga- og geðlyfjum en fólk annars staðar á Norðurlöndum. Það hefur komið fram að ópíumfaraldur af völdum verkjalyfja geisi hér út um allt. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þúsundir veiks fólks eru á biðlista eftir lífsnauðsynlegum aðgerðum á mjöðm, hnjám eða öðrum bæklunaraðgerðum. Þess vegna er inntaka á ávanabindandi lyfjum alltaf að aukast og aukast.“
Óþörf og skaðleg lyfjanotkun
Guðmundur Ingi sagði fólk geta verið óvinnufært, rúmfast og verkjað svo árum skiptir, án þess að komast að í aðgerð. Og taka verkjalyf á meðan til að halda sönsum.
„Að skaða veikt fólk með óþarfa inntöku á skaðandi ópíóíðum, jafnvel svo árum skiptir, á heimatilbúnum biðlista er fáránlegt og okkur öllum hér inni til háborinnar skammar.“
„Andlátum af völdum þessara lyfja heldur áfram að fjölga. Hvað eru margir að verða fyrir skaða vegna notkunar á sterkum verkjalyfjum svo mánuðum eða árum skiptir? Hvað eru margir á biðlistafæribandinu sem færir viðkomandi hægt og bítandi í fíkn, skaða eða bara beint í örorku. Stöðvum biðlistafæribandið og sjáum til þess að þeir sem þurfa á lífsnauðsynlegri aðgerð að halda fái hana strax.“