Erlent

Hefja klínískar rannsóknir á nýju ómíkron bóluefni

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Um 1400 manns fá boð um að taka þátt í rannsókninni.
Um 1400 manns fá boð um að taka þátt í rannsókninni. Getty/Artur Widak

Lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNTech munu hefja klínískar rannsóknir á sérstöku bóluefni gegn ómíkron afbrigði kórónuveirunnar en fyrirtækin tilkynntu um þetta í dag. Önnur fyrirtæki vinna nú sömuleiðis að þróun bóluefna gegn ómíkron. 

Kathrin U. Jansen, yfirmaður bóluefnarannsókna og þróunar hjá Pfizer, segir í tilkynningu um málið að þau gögn sem nú standa til boða bendi til þess að örvunarskammtur með fyrri bóluefni gegn Covid-19 veiti mikla vörn gegn alvarlegum veikindum af völdum ómíkron.

Þau þurfi þó að vera viðbúin ef sú vernd minnkar með tímanum og vera þá tilbúin til að bregðast sérstaklega við ómíkron eða öðrum afbrigðum veirunnar sem kunna að koma upp.

„Til að vera á varðbergi gegn veirunni verðum við að finna nýjar leiðir fyrir fólk til að viðhalda mikilli vernd, og við trúum því að þróun og rannsóknir bóluefna sem einblína á afbrigðin, eins og þetta, skipti sköpum,“ segir Jansen.

Fá einn til þrjá skammta af ómíkron bóluefninu

Rannsóknin verður gerð meðal heilbrigðra einstaklinga átján til 55 ára og skiptist í þrjá hópa. Í heildina fá rúmlega 1400 manns boð til að taka þátt í rannsókninni.

Rúmlega 600 sem hafa þegar fengið tvo skammta af bóluefni fá einn til tvo skammta af ómíkron bóluefninu, 600 sem hafa fengið þrjá skammta fá einn skammt af ómíkron bóluefninu, og rúmlega 200 sem ekki hafa fengið neina bólusetningu fá þrjá skammta af nýju ómíkron bóluefni.

Fyrr í mánuðinum kölluðu sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eftir nýjum bóluefnum sem veita betri vernd gegn smiti þar sem það væri ómögulegt að reiða sig á sífelldar örvunarbólusetningar til að takast á við ný afbrigði kórónuveirunnar.

Auk Pfizer og BioNTech hafa fleiri lyfjafyrirtæki greint frá því að þau stefni að þróa nýtt bóluefni, þar á meðal Moderna og AstraZeneca.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.