Innlent

Um­ferðar­slys á Bú­staðar­vegi, Kringlu­mýrar­braut og Ný­býla­vegi í gær­kvöldi

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt var um bílveltu á Bústaðarvegi um 20:30 í gærkvöldi
Tilkynnt var um bílveltu á Bústaðarvegi um 20:30 í gærkvöldi Vísir/Vilhelm

Nokkuð var um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Um klukkan hálf níu í gærkvöldi var tilkynnt um bílveltu á Bústaðarvegi en þar urðu þó ekki slys á fólki.

Í dagbók lögreglu segir að ökumaður hafi þar verið grunaður um ölvun við akstur og að lokinni sýnatöku hafi hann verið vistaður í fangageymslu. Skemmdir urðu á götuvita vegna veltunnar og var bíllinn fjarlægður af vettvangi.

Um 23:30 var tilkynnt um umferðaróhapp á Kringlumýrarbraut þar sem bíl hafði verið ekið aftan á annan. „Tjónþoli kvartaði um verki í kálfa og höfði, ætlaði sjálfur í skoðun á Bráðadeild. Tjónvaldur var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og var hann að lokinni sýnatöku vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Báðar bifreiðar fluttar af vettvangi með Króki.“

Um svipað leyti var tilkynnt um umferðaróhapp á Nýbýlavegi í Kópavogi. Þar hafði verið ekið á ljósastaur og mun tjónvaldur hafa ekið af vettvangi án þess að tilkynna tjónið. Orkuveitu var tilkynnt um tjónið vegna mögulegrar hætta við staurinn.

Grunaðir um vörslu fíkniefna

Skömmu fyrir klukkan 20 í gærkvöldi voru tveir menn í bíl handteknir í miðborginni vegna gruns um vörslu fíkniefna sem vöru haldlögð. Mennirnir voru lausir að lokinni skýrslutöku, en bíllinn var ótryggður og skráningarnúmer því klippt af.

Um miðnætti óskaði vagnstjóri hjá Strætó eftir aðstoð vegna ölvaðs manns sem hann átti í vandræðum með að koma úr vagninum. Ölvaði maðurinn fékk aðstoð við að komast úr vagninum og var honum ekið á gististað sinn.

Þá segir loks frá því að um klukkan 21 hafi verið tilkynnt um mikla fíkniefnalykt koma frá íbúð í Garðabæ. Hafði lögregla þar afskipti af konu sem þar býr og afhenti hún efnin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×