Innlent

Ármann hættir sem bæjarstjóri í vor

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ármann Kr. Ólafsson hefur verið bæjarstjóri Kópavogs frá 2012.
Ármann Kr. Ólafsson hefur verið bæjarstjóri Kópavogs frá 2012. Vísir/Vilhelm

Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Kópavogs, mun ekki sækjast eftir endurkjöri í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hann segir tímabært að einhver annar taki við keflinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla í dag.

Þar segir Ármann að hann hafi tilkynnt kjörnefnd Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi í gærkvöldi að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í prófkjöri flokksins í Kópavogi þann 12. mars næstkomandi.

Ármann hefur setið í bæjarstjórn Kópavogs frá árinu 1998 og verið bæjarstjóri frá 2012. Hann var jafnframt alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi kjörtímabilið 2007-2009.

Hann segir nú tímabært að stíga til hliðar og að annar taki við keflinu.

„Ég er stoltur af því að hafa starfað með Sjálfstæðisflokknum í gegnum þær umbreytingar sem hafa átt sér stað í Kópavogi og hafa leitt flokkinn síðustu 12 ár. Ég hef ávallt haft þá sýn að góður rekstur og ábyrg fjármálastjórn sé undirstaða blómlegs vaxtar bæjarfélagsins og er þeirrar skoðunar að það skýri þá sterku stöðu sem bærinn nýtur núna,“ segir Ármann.

Þá þakkar hann Kópavogsbúum, starfsfólki Kópavogsbæjar, Sjálfstæðisfólki í Kópavogi og pólitískum fulltrúum allra flokka í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu og þeim fulltrúum fyrirtækja og félagasamtaka fyrir samstarfið undanfarin ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×