Innlent

Umboðsmaður barna beinir því til HSS að gera úrbætur á sýnatöku barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Vísir/Egill

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur sent forstjóra Heilbrigðisstofnun Suðurnesja erindi þar sem því er beint til stofnunarinnar að gera úrbætur á framkvæmd sýnatöku barna vegna Covid-19.

Í erindinu, sem er dagsett 11. janúar, segir að umboðsmanni hafi borist ábendingar um að umhverfi sýnatökunnar sé ekki barnvænt, auk þess sem þröngt sé um börnin og foreldra þeirra. Þá séu þeir sem taka sýni úr börnunum ekki menntaðir heilbrigðisstarfsmenn og þeir hafi ekki fengið þjálfun í að eiga í samskiptum við börn.

„Afar mikilvægt er að börn upplifi sig örugg og að aðstæður fyrir sýnatöku barna séu eins barnvænar og kostur er. Börn eru þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd og umönnun og hafa verður í huga að sýnataka og óvissa um niðurstöðuna getur valdið börnum miklum kvíða,“ segir í erindinu.

Umboðsmaður beinir því til stofnunarinnar að aðskilja þau svæði þar sem sýnatökur barna annars vegar og fullorðinna hins vegar fara fram og umhverfið gert hlýlegt og barnvænt. Þá sé æskilegt að þeir sem taka sýni úr börnum séu heilbrigðisstarfsmenn eða hafi hið minnsta fengið þjálfun til að gera þeim kleift að bregðast við kvíða og vanlíðan barnanna vegna sýnatökunnar.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, sem sér um sýnatökur við Suðurlandsbraut, hafði áður fengið áþekkt bréf frá umboðsmanni og hefur nú brugðist við ábendingum, meðal annars með því að veita börnum forgang og þjálfa starfsmenn í að taka sýni úr börnum. Hins vegar er enn tekið á móti börnum og fullorðnum á sama svæði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.