Innlent

„Því meiri samgangur, því meiri útbreiðsla“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra væntir þess að fá minnisblað frá sóttvarnalækni um næstu aðgerðir innanlands seinni partinn í dag eða á morgun. Hann segir ljóst að farið sé að hrikta í stoðum og starfsemi samfélagsins og að aukinn samgangur auki líkur á enn frekari útbreiðslu

Núgildandi aðgerðir falla úr gildi á miðvikudag en þær kveða meðal annars á um tuttugu manna samkomutakmarkanir. Þær tóku gildi á Þorláksmessu en engu að síður hefur útbreiðsla kórónuveirunnar aldrei verið meiri en nú eru um tuttugu þúsund manns í einangrun eða sóttkví. 915 greindust með Covid19 innanlands í gær og 198 á landamærunum. Tveir létust af völdum Covid19 í gær.

„Þegar við erum komin með hátt í 20 þúsund manns þá fer að hrikta í stoðum og starfsemi í víða í samfélaginu. Þannig að þetta er svolítið farið að bíta í skottið á sér. Við héldum nokkra samráðsfundi með ráðherrum og fólki víða að, meðal annars úr atvinnulífinu, og það varð eitthvað að gera,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í Sprengisandi í morgun.

Willum vísaði þar til breytinga sem gerðar voru í vikunni; styttingu á sóttkví og að heimila fólki að útskrifa sig sjálft úr einangrun. Ljóst sé þó að takmarkanir í samfélaginu séu nauðsynlegar.

„Því meiri samgangur, því meiri útbreiðsla. Og þá fyllast þessi helstu tæki okkar. Nú er bara staðan þessi og þá reynum við að bregðast við, en með mati okkar bestu sérfræðinga sem við höfum þegið ráð frá allan tímann og góð ráð.“

Minnisblaðið fer fyrir ríkisstjórn á þriðjudag en Willum telur ástæðu til að fela þinginu aukið hlutverk í þessum efnum.

„Við höfum ekki farið með þetta í þingið nema í sérstakri umræðu og skýrslugjöf en ég held að fram veginn hljótum við að horfa til þess að þingið fái aukið hlutverk og vægi í þessa umræðu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×