Innlent

Smit greindist hjá áhöfn Icelandair eftir flug frá Washington D.C. milli jóla og nýárs

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þeir sem greindust með Covid-19 eru nú í sóttkví eða einangrun.
Þeir sem greindust með Covid-19 eru nú í sóttkví eða einangrun.

Smit kom upp hjá áhöfn Icelandair sem flaug hingað til lands frá Washington D.C. 27. desember síðastliðinn. Heimildir Vísis herma að öll áhöfnin hafi reynst smituð af Covid-19 utan flugstjórans en þetta hefur ekki fengist staðfest hjá Icelandair.

Samkvæmt svörum Icelandair við fyrirspurn Vísis eru umræddir áhafnarmeðlimir nú í sóttkví eða einangrun en Guðni Sigurðsson, sérfræðingur á samskiptasviði, vildi ekki svara því hversu margir hefðu greinst, þar sem um persónuupplýsingar væri að ræða. 

Spurður að því hvort samband hafi verið haft við alla farþega vélarinnar, sagðist Guðni Icelandair aðeins geta svarað almennt um fyrirkomulagið en við smitrakningu væri farið eftir viðmiðum hérlendis og erlendis og „haft samband við þá sem teljast útsettir samkvæmt því“.

„Verklagið hjá Icelandair er í takt við þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi hverju sinni og unnið í góðu samstarfi við smitrakningarteymi. Sóttvarnaryfirvöld taka ákvörðun um sóttkví eða smitgát farþega og hafa samband við farþega varðandi þessi mál,“ sagði í svörum Icelandair við fyrirspurn Vísis.

Spurður um áhrif hópsmitsins á áætlanir fyrirtækisins sagði Guðni að hingað til hefði gengið vel að leysa úr stöðunni hverju sinni og því hefði sóttkví og einangrun starfsfólks ekki haft mikil áhrif á áætlanir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.