Innlent

„Það er mjög seigt í turninum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vindmyllan vill ekki niður, enn.
Vindmyllan vill ekki niður, enn. Vísir

Það hefur reynst mun erfiðara en reiknað var með að fella vindmylluna í Þykkvabæ. Eftir fimm tilraunir sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar er nú beðið eftir fleiri hleðslum frá Reykjavík.

Rétt fyrir klukkan tvö í dag var fyrsta sprengjan sprengd. Hún felldi ekki vindmylluna og sömu sögu má segja um tilraun tvö, þrjú, fjögur og fimm. Síðasta tilraunin var gerð um klukkan sex í dag.

„Við kannski bjuggumt ekkert við að þetta myndi taka þetta margar tilraunir. Það er mjög seigt í turninum. Sprengjusérfræðingarnir, já þetta kom þeim aðeins á óvart, hversu mikið efni hefur þurft. Það er ómögulegt að segja hvort þetta takist í næstu tilraun en við verðum að vona það,“ sagði Bjarki Oddsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi við Lillý Valgerði Pétursdóttur fréttamanni okkar, þau hafa staðið vaktina við vindmylluna í dag í nístingskulda ásamt Arnari Halldórssyni tökumanni.

Hlé hefur verið gert á aðgerðum á meðan beðið er eftir frekari sprengjuhleðslum frá Reykjavík en freista á þess að fella vindmylluna í kvöld, enda von á vonskuveðri á Suðurlandi á morgun. 

Nístingskuldi er á svæðinu og standa vonir til þess að hægt verði að ljúka verkinu sem fyrst.

„Það er búið að vera mjög kalt. Það er fallegt veður en átta tímar út í kuldanum, þetta er farið að verða gott,“ segir Bjarki.

Fylgjast má með beinni útsendingu frá vindmyllunni hér.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Vindmyllan í Þykkvabæ sprengd

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar stefnir á að sprengja upp úr hádegi vindmylluna í Þykkvabæ sem eyðilagðist í bruna í miklu roki á nýársdag. Sprengingin verður í beinni útsendingu á Vísi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.