Lífið

Inga Sæ­land á­nægð með skaupið: „Ég er búin að marg­hlæja að þessu“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Til vinstri má sjá hina raunverulegu Ingu Sæland, í miklu stuði eftir að fyrstu tölur bárust í Alþingiskosningunum í september. Til hægri má hins vegar sjá Áramótaskaups-Ingu, sem leikin var af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur.
Til vinstri má sjá hina raunverulegu Ingu Sæland, í miklu stuði eftir að fyrstu tölur bárust í Alþingiskosningunum í september. Til hægri má hins vegar sjá Áramótaskaups-Ingu, sem leikin var af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Samsett/Skjáskot

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er hæstánægð með það stóra hlutverk sem hún og hennar flokkur fékk í Áramótaskaupi Ríkisútvarpsins þessi áramótin. Hún er búin að horfa á skaupið þrisvar og hyggst gera það oftar, svo ánægð var hún með það. Hún segist ekki taka það inn á sig að gert hafi verið grín að henni í skaupinu.

„Auðvitað horfði ég á skaupið og ég er bara ofurstolt. Við vorum þarna stjörnum prýdd, Flokkur fólksins,“ sagði Inga þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar og innti eftir viðbrögðum við Skaupinu.

Í einu atriði skaupsins var Inga stödd í leiðtogaumræðum á RÚV. Þar fengu áhorfendur að heyra hvað fulltrúar flokkanna sem voru í framboði til Alþingiskosninganna voru að hugsa. Það er þangað til Inga, sem leikin var af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, sagði: „Ég segi upphátt allt sem ég hugsa. Líka núna. Ég elska að hlusta á Meatloaf og ryksuga. Ég er komin til að sjá og sigra, Sigurjón digra. Halló Hafnarfjörður, dingdong, bingó!“

Inga kveðst hafa hlegið mikið að atriðinu og finnst „bara töff að taka Meatloaf og ryksuguna á þetta,“ eins og hún kemst sjálf að orði. Þá er hún afar ánægð með leik Ólafíu Hrannar.

„Við erum svo sem ekkert líkar á áferðina, en hún var alveg með taktana. Ég hélt nú kannski að þau myndu láta Sóla Hólm leika mig, hann gerir það svo vel.“

Ekkert bjarg of hátt fyrir Flokk fólksins

Í öðru atriði í skaupinu hélt Inga, aftur leikin af Ólafíu Hrönn, eins konar predikun sem braust út í svo kraftmikinn söng að fólk sem studdist við hjálpartæki til að ganga gat allt í einu staðið á fætur og dansað hjálparlaust. Þar söng hún lagið Ain‘t No Mountain High Enough, með íslenskum texta, og sagði meðal annars að ekkert fjall væri nógu hátt til að halda Flokki fólksins frá þingi.

Inga var einkar ánægð með atriðið og sagði raunar engu logið.

„Þetta var allt satt. Það er ekki til það háa bjarg sem Flokkur fólksins getur ekki klifið.“

Í atriðinu mátti sjá bregða fyrir samflokksmönnum Ingu, þeim Tómasi A. Tómassyni, betur þekktum sem Tomma á Búllunni, sem leikinn var af Ladda, og Jakobi Frímanni Magnússyni. Freyr Eyjólfsson fór með hlutverk hans og lék af ástríðu á hljómborð meðan Inga söng.

„Ég er bara enn að syngja þetta. Maður verður að læra textann, því við Jakob eigum örugglega eftir að spila þetta þegar við förum á flandur um landið,“ segir Inga og hlær við.

Kemst ekki í skaupið nema eftir þér sé tekið

Allt í allt segist Inga ánægð að hafa verið í jafn stóru hlutverki í skaupinu og raun bar vitni. Hún komi stolt undan skaupi.

„Því það fær enginn að vera í skaupinu nema hann sé umdeildur og eftir honum sé tekið,“ segir Inga og bætir við að henni hafi raunar þótt skaupið allt vera hin mesta meistarasmíð.

„Ég er búin að marghlæja að þessu, þetta var alveg æðislegt. Þau eru öll svo frábær, þetta eru náttúrulega okkar bestu leikarar og þau tóku vítt og breitt það sem gerðist yfir árið.“

Inga er búin að horfa þrisvar sinnum á skaupið frá því það var frumsýnt í gærkvöldi, og ætlar sér að horfa oftar.

„Því maður sér alltaf eitthvað nýtt og meira til að hlæja að. Að lokum segi ég bara áfram veginn og gleðilegt 2022. Rosalega á þetta eftir að verða mikið betra ár en það síðasta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×