Innlent

Mikill erill hjá lög­reglu: Hnífs­tungur, gróður­eldar, flug­elda­slys og inn­brot

Atli Ísleifsson skrifar
Í Garðabæ var tilkynnt um flugeldaslys þar sem sextán ára barn varð fyrir því að flugeldur sprakk nærri honum og er hann hann nokkuð mikið brenndur.
Í Garðabæ var tilkynnt um flugeldaslys þar sem sextán ára barn varð fyrir því að flugeldur sprakk nærri honum og er hann hann nokkuð mikið brenndur. Vísir/Egill

Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en 125 mál eru skráð frá klukkan 17 síðdegis í gær og til klukkan níu í morgun. Talsvert var um tilkynningar um gróðurelda en meirihluti þeirra var um að ræða minniháttar elda.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að níu séu nú vistaðir í fangaklefum lögreglunnar.

Tilkynnt var um tvær hnífstungur í nótt. Sú fyrri var klukkan fjögur í nótt þar sem tilkynning barst um mann sem hafði reynt að stinga mann með tveimur hnífum í hverfi 102. „Tilkynnanda tókst að læsa sig inni í íbúð sinni og var gerandi handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.“

Skömmu fyrir klukkan fimm var svo tilkynnt um aðra hnífstungu, þá í hverfi 108. „Á vettvangi kom í ljós að brotaþolar voru tveir og var árásaraðili handtekinn á vettvangi. Brotaþolar fluttir á slysadeild til aðhlynningar og eru ekki taldir vera í lífshættu. Árásaraðili var að lokinni aðhlynningu á Bráðadeild vistaður í fangageymslu lögreglu.“

Var kominn hálfur inn í íbúðina

Lögregla var einnig kölluð út vegna innbrota, meðal annars í verslun á Laugaveginum þar sem rúða hafði verið brotin og farið inn og stolið þremur úlpum. Einnig var tilkynnt um innbrot í verslun í Mörkinni í hverfi 108.

Skömmu eftir miðnætti við tilkynnt um tilraun til innbrots í hverfi 108. Þar hafði húsráðandi komið að manninum þar sem hann var búinn að brjóta rúðu og var kominn hálfur inn í íbúðina. „Gerandi kom sér í burtu á tveimur jafnfljótum og er málið í rannsókn.“

Reyndi að sparka upp hurð

Upp úr klukkan eitt var tilkynnt um mann að sparka upp hurð hjá nágranna þess sem hringdi á lögreglu í hverfi 105. „Þar reyndist vera á ferðinni ofurölvi einstaklingur sem var að fara húsavillt. Hann færður á lögreglustöð til viðræðna og var síðan laus.“

Auk þess þurfti lögregla að sinna ýmsum verkefnum sem sneru að flugeldum, gróðureldum og fleiru. Segir meðal annars frá nokkrum flugeldaslysum og að flugeldar hafi farið inn um glugga í nokkrum húsum og sprungið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×