Innlent

Að minnsta kosti tveir inniliggjandi sjúklingar með ómíkron

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Fjórtán eru nú inniliggjandi á Landspítala með Covid. 
Fjórtán eru nú inniliggjandi á Landspítala með Covid.  Vísir/Vilhelm

Tveir sjúklingar af þeim fjórtán sem eru nú inniliggjandi á Landspítala eru með ómíkron afbrigði veirunnar en ekki er útilokað að þeir séu fleiri. Mikið álag er nú á göngudeildinni og smitrakningarteymi almannavarna. 

Að minnsta kosti tveir sjúklingar sem liggja nú inni á Landspítala eru með ómíkron afbrigði veirunnar en þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttanefnd spítalans.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um veiruafbrigði allra þeirra sem eru nú inniliggjandi. 

Í heildina eru nú 14 inniliggjandi og fimm á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél. Alls lögðust 10 manns inn um helgina en fimm útskrifuðust. Algjört heimsóknarbann er nú á landspítala og gildir það til hádegis á gamlársdag.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki fagnaðarefni að fleiri hafi ekki þurft að leggjast inn á spítala en raun ber vitni.

„Ég myndi nú ekki segja að við getum verið að fagna einu eða neinu og ég held að við eigum frekar að líta á það þannig að við gætum átt eftir að sjá fleiri innlagnir af völdum omíkron. Það tekur eina til tvær vikur að skila sér inn á spítalann. Sá tími er að fara í hönd núna,“ sagði Þórólfur í samtali við fréttastofu fyrr í dag. 

Alls greindust 664 smitaðir af veirunni í gær og eru nú 4.335, þar af 1.033 börn, í eftirliti hjá Covid-göngudeildinni sem er undir miklu álagi. 105 eru metnir sem gulir en enginn er á rauðu. 

Sömuleiðis er gríðarlegt álag á smitrakningateymi almannavarna og er því seinkun á því að fólk sé skráð í sóttkví. Telji fólk að það hafi verið útsett fyrir smiti er það því beðið um að líta sem svo á að það sé í sóttkví. 


Tengdar fréttir

Fjölgaði á spítala og gjör­gæslu yfir jólin

Nú liggja fjórtán sjúklingar inni á Landspítalanum vegna Covid-19. Þar af eru fimm á gjörgæslu og þrír þeirra í öndunarvél. Helmingur einstaklinganna er óbólusettur, þar af fjórir þeirra sem eru á gjörgæslu.

Innlögnum ekki að fjölga

Innlögnum er ekki farið að fjölga á Landspítala þrátt fyrir gífurlega útbreiðslu omíkron-afbrigðisins. Um 1400 manns hafa greinst með veiruna á síðustu þremur dögum en talið er að jákvæðum niðurstöðum fjölgi á næstu virku dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×