Innlent

Sextán ára í öndunarvél vegna Covid

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ellefu liggja nú inni á Landspítalanum vegna Covid.
Ellefu liggja nú inni á Landspítalanum vegna Covid. Vísir/Vilhelm

Sextán ára einstaklingur liggur í öndunarvél á gjörgæslu á Landspítalanum vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar. Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild spítalans, í samtali við fréttastofu.

Mbl greindi fyrst frá en í samtali við fréttastofu sagði Már að engar frekari upplýsingar væri hægt að veita um málið að svo stöddu. Hann gat til að mynda ekki greint frá því hvort viðkomandi væri bólusettur eða ekki.

Líkt og greint var frá í dag liggja ellefu nú á Landspítalanum vegna veikinda af völdum Covid, þar af níu með virkt smit. Þrír voru lagðir inn á spítalann í gær á móti þremur útskrifuðum og því breyttist fjöldi inniliggjandi ekki á milli daga.

Af þessum ellefu eru fjórir á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél. Í gær, á aðfangadag, greindust 493 með Covid-19 innanlands. Af þeim var tæpur þriðjungur í sóttkví.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×