Borið hefur á umræðu um ærið misjöfn vinnubrögð umsjónarmanna hraðprófa á ólíkum hraðprófsstöðum í Reykjavík. Sumir rétt strjúka manni í nösina og aðrir keyra pinnann ofan í heila, eins og einn komst að orði.
Fréttastofa gerði óformlega könnun á vinnubrögðunum á ólíkum stöðum í dag og við skelltum okkur í hraðpróf:
Hraðpróf fyrir viðburði eru að hluta til framkvæmd af einkaaðilum, sem fengu greiddar 240 milljónir króna frá Sjúkratryggingum í október og nóvember. Sú upphæð hefur að líkindum ekki gert nema hækkað síðan.
Sóttvarnalæknir segir að leiðbeiningar yfirvalda kveði á um að sýnin séu tekin úr nefkoki en ekki aðeins nefi. Ef þetta er ekki gert rétt, segir Þórólfur að niðurstöðurnar séu alls ekki öruggar, sem aftur geti gert þetta mjög varasamt; falskt öryggi.
Yfirvöld hafa þrátt fyrir ábendingar um misbresti ákveðið að treysta aðilunum fyrir framkvæmdinni, en ekki haft neitt eftirlit með henni.
„Ef þetta er ekki gert rétt og margir hafa sent okkur upplýsingar um það, getum við ekki treyst niðurstöðunum. Það er mjög líklegt að þetta geti verið falskt neikvætt próf og það getur verið mjög varasamt,“ segir Þórólfur.
Á meðal viðburða sem byggt hafa á hraðprófi, og einnig sérstakri fjöldaundanþágu frá sóttvarnayfirvöldum, eru tónleikar Emmsjé Gauta sem eru haldnir í kvöld og á morgun: