Sohrab Kohi ræddi við fréttastofu með son sinn í fanginu en eiginkona hans og móðir eru sömuleiðis komnar til landsins.
„Ég er mjög hamingjusamur og ég kann að meta aðstoð íslenskra stjórnvalda,“ sagði Kohi.
Hér að neðan má sjá þegar hann faðmaði börnin sín:
Jólabarnið komið heim
Á meðan gránaði fyrir degi á annars stysta degi ársins beið Zeba Sultani líka eftir sex mánaða syni sínum á Keflavíkurflugvelli - með tilbúna fyrir hann litla úlpu fyrir íslenskar aðstæður.

Hann þarf að venjast þeim, því hér verður litla fjölskyldan um jólin - sem er nú sameinuð í fyrsta sinn frá því í Afganistan í sumar. Arsalan var tveggja mánaða þegar móðir hans sá hann síðast - þegar foreldrarnir urðu viðskila við barnið í upplausnarástandi við valdatöku talíbana í Kabúl.
„Ég á erfitt með tilfinningar mínar en ég er hamingjusöm. Ég gleðst yfir að sjá son minn eftir fjóra og hálfan mánuð,“ sagði Zeba í samtali við fréttastofu.
Faðirinn tekur undir með henni, sem flaug til móts við barnið til Georgíu þar sem það ferðaðist með vinafólki þeirra: „Dvölin í Georgíu var mjög erfið því barnið var aðskilið frá tengdamóður minni. Hann þekkti þau en þegar hann kom hingað þekkti hann okkur ekki.
Hann grét stöðugt í tvo daga og drakk litla mjólk. Ég var mjög áhyggjufullur og þetta olli mér sársauka. En nú er ég glaður að sonur okkar er kominn til okkar,“ segir Khairullah Yosufi.
Samtals komu 22 Afganar til landsins í dag, flestir svonefndir kvótaflóttamenn. Þeir eru því orðnir 83 talsins sem hingað hafa komið eftir valdatöku talíbana og stefnt er að því að taka á móti um 120 í heildina.